149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

532. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 um breytingu á IX. viðauka, um fjármálaþjónustu, við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Mörtu Margréti Rúnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018, frá 27. apríl 2018, um breytingu á IX. viðauka um fjármálaþjónustu við EES-samninginn, eins og áður sagði. Hér er um að ræða breytingar á ýmsum tilskipunum sem hægt er að lesa nánar um í nefndaráliti og ég ætla ekki að fara út í.

Gefinn var sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, til 28. október 2018. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipunin er eins konar bandormur sem breytir mörgum gerðum á sviði verðbréfamarkaðar vegna tilkomu samevrópska eftirlitskerfisins á fjármálamarkaði sem samþykkt var að koma á innan ESB árið 2010. Komið var á fót þremur eftirlitsstofnunum sem hafa eftirlit með fjármálastarfsemi á innri markaði, Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni. Stofnanareglugerðir um umgjörð og ramma um heimildir stofnananna þriggja voru innleiddar í íslenskan rétt með lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Með tilskipuninni er tilteknum Evrópugerðum á fjármálamarkaði breytt og kveðið á um heimildir EBA, EIOPA og ESMA þar sem það á við. Tilskipunin sjálf féll úr gildi innan ESB í ársbyrjun 2018 en eigi að síður var talið nauðsynlegt að taka hana upp í EES-samninginn.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar og er fyrirhugað að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvörp til innleiðingar á þeim hlutum tilskipunarinnar sem falla undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á árinu 2019. Þá voru þau ákvæði tilskipunarinnar er varða breytingar á Evrópulöggjöf um varnir gegn peningaþvætti innleidd með lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður, Bryndís Haraldsdóttir, Ásgerður K. Gylfadóttir, Fjölnir Sæmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson og Smári McCarthy.