150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

dagskrá fundarins.

[13:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að nýta mínar tvær mínútur í að vera bæði sammála og ósammála hv. þm. Bergþóri Ólasyni. Ég er sammála honum um að það er mikilvægt að við séum með skýra sýn á það í hvað við ætlum að nota þá takmörkuðu þingfundi sem við erum með og ég get tekið undir það að það er sérstakt í því ljósi að þjóðlendumálið skuli vera á dagskrá. Ég er honum hins vegar ósammála í því að það hefði mátt skipta út vegasamvinnumálinu og þessu máli, en þar kemur pólitísk sýn inn í.

Ég tek líka undir með hæstv. forseta að það voru umræður á fundi þingflokksformanna í dag og gerðar voru breytingar í átt til betri vegar. En mig langar aðallega að árétta hér að það er mjög mikilvægt að samtal eigi sér stað og ég ætla bara að nýta tækifærið og lýsa undrun minni á því að fundur hæstv. forsætisráðherra með formönnum stjórnarflokka í gær skuli t.d. ekki hafa verið nýttur í að ræða svona mál. Það er mjög óþægilegt og það myndast ákveðið óöryggi ef það er að gerast aftur og aftur á meðan á dagskránni stendur að við þingmenn vitum ekki hvar við stöndum varðandi dagskrána nema það eitt að verið er að takmarka tíma okkar í ræðustól.