150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19.

[14:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér segja menn og hv. þingmaður að menn sé farið að lengja eftir aðgerðum en á sama tíma sjáum við að á hverjum degi er myndin að breytast. Við hefðum getað boðað hugmyndir um aðgerðir í síðustu viku sem ættu bara ekkert við í dag. Það sem gerst hefur á undanförnum sólarhringum og mun hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna eru atriði sem munu hafa mjög versnandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Ég lét þess getið í viðtalsþætti í dag að það væri alveg ljóst að halli ríkissjóðs yrði meiri en 100 milljarðar. Þar horfum við bara til þess að í einhverri sviðsmynd að gefnum ýmsum forsendum getum við farið að horfa upp á samdrátt á árinu sem gæti legið öðrum hvorum megin við 6%. Það er mjög mikil óvissa. Kannski verður samdrátturinn meiri, 8%, og með ákveðnum þumalputtareglum er hægt að sjá að þá förum við alveg augljóslega yfir 100 milljarða. Við erum ekki að tala um tölur sem endurspegla neitt annað en samdráttinn í efnahagskerfinu. Hver verður síðan endanlegur kostnaður af aðgerðum ríkissjóðs, til að mynda út af hlutastarfaleiðinni eða öðrum stuðningsaðgerðum, er ekki tímabært að segja neitt til um. Við getum reynt að nálgast umfang slíkra aðgerða með því að gefa okkur tilteknar forsendur en ég held að við munum þurfa að sætta okkur við það að á árinu 2020 getum við ekki farið út í aðgerðir með neina fullvissu um það hvar við endum í afkomu ríkissjóðs. Þess vegna held ég að það sé tiltölulega tilgangslaus umræða að hengja sig á það hvort milljarðarnir verða 100 eða eitthvað fleiri. Ég held að við þurfum bara að einbeita okkur að því að aðgerðirnar skili sínu. Ég vona að þetta svari fyrirspurninni.