150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19.

[14:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Stutta svarið við spurningu hæstv. ráðherra er: Nei, þetta svarar ekki fyrirspurninni því að ég er auðvitað að leita miklu frekar eftir því hvert umfangið verði. Er hægt að gefa okkur einhverja innsýn í ætlað umfang aðgerða ríkisstjórnar? Áhyggjur mínar í dag eru ekki þyngstar yfir því hvort halli ríkissjóðs verði 100 milljarðar eða 200 milljarðar. Ég hafði hins vegar áhyggjur af því þegar ég heyrði þessa tölu, 100 milljarða, af því að það er mjög auðvelt að reikna sig upp í hana í fljótheitum, að hún innifæli þá engar aðgerðir af hálfu ríkissjóðs í þessari efnahagskrísu. Ég vona svo sannarlega að metnaður ríkisstjórnarinnar sé meiri í þessu.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hefðu einhverjar aðgerðir verið kynntar í síðustu viku hefði eflaust þurft að grípa til enn meiri aðgerða núna. Sennilega mun hið sama eiga við um næstu og þarnæstu viku. Ætli ríkisstjórnin að bíða eftir því að sjá til botns í þessari stöðu er sennilega best að bíða með aðgerðir þar til í haust. Það þýðir þá að þær þyrftu að verða umtalsvert meiri. Þess vegna held ég að mjög brýnt sé, líkt og aðrar ríkisstjórnir hafa verið að gera, að við sjáum framan í fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þær verða án efa ekki hinar síðustu.