150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég misskildi greinilega eitthvað umræðu hans um laun til foreldra barna sem nú þurfa að fara heim. Ég misskildi ræðu hæstv. ráðherra og hélt að ráðherra væri að segja að það væri rétt að nefndin skoðaði hvort foreldrar barna sem núna þurfa að fara heim ættu líka að fá greiðslur vegna þess að sóttvarnalæknir fyrirskipar þetta samkomubann að einhverju leyti. Þess vegna verður þessi mikla takmörkun á skólahaldi í landinu.

Er það þá rétt skilið að hæstv. ráðherra líti svo á að það sé ekki rétt að lögin taki til foreldra barna sem þurfa að fara heim út af samgöngubanni? Hvað með foreldra barna sem þurfa að fara í sóttkví ef barn þarf að fara í sóttkví af því að það hefur verið á einhverju heimili þar sem einhver hefur verið veikur eða eitthvað slíkt? Eru það þeir foreldrar eingöngu af því að barnið þarf af heilsufarsástæðum að vera í sóttkví? Er það þess vegna sem annað foreldrið fær þá leyfi til tímabundinnar greiðslu eða vinnuveitandinn?