151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar og atvinnuleysi.

[15:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hér í upphafi faraldursins átti að bregðast við jafnóðum. Við erum búin að sjá það byggjast upp á heilu ári og loksins núna er að koma þessi aðgerð Hefjum störf, sem klárast, eftir því sem ég fæ best skilið, í kringum kosningar. Þá virkar hún ekki lengur. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni eða neinu svoleiðis eftir það. Það finnst mér vera mjög óábyrgt af því það verður mögulega pínulítið uppnám í stjórnmálum á þeim tíma þar sem það verður kannski ríkisstjórnarmyndun aftur o.s.frv. Hver veit? Og hvað á fólk þá að gera þegar það missir vinnuna akkúrat í kringum kosningar, af því að ríkisstjórnin er ekki tilbúin að koma með aðgerðaáætlun um hvernig tækla á atvinnuleysið? Við verðum að skoða árangurinn af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Já, við verðum að skoða hann í heild sinni. Ekki bara meðaltölin, eins og fram kom hér áðan, heldur í heild sinni. Og heildin sýnir að atvinnuleysi fer stigvaxandi og breytingarnar sem sjást núna eru í raun árstíðabundnar sveiflur.