151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

samningar við sérgreinalækna.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Grundvallaratriðið í þessu er auðvitað takmarkað fjármagn. Við erum með tiltekið ákvarðað fjármagn af hendi fjárstjórnarvaldsins sem er Alþingi, þ.e. hversu miklar upphæðir við viljum setja í kaup á þjónustu sérgreinalækna. Það getur ekki verið ótakmarkað. Það er takmarkað á einhvern hátt. Þá þurfum við að vita sem kaupandi þeirrar þjónustu hvaða þjónusta það á að vera. Þarna stendur hnífurinn í kúnni vegna þess að veitendur þjónustunnar vilja geta veitt hana samkvæmt eigin mati og sent síðan reikninginn á ríkið. Það er þessi ágreiningur sem liggur í loftinu. Það sem ég áforma að gera er í raun og veru að setja fram reglugerð um að endurgreiðslan verði ekki við þá sem starfa án samnings og taki þá ekki til þeirra sem krefja sjúklinga um auknar greiðslur umfram gjaldskrá Sjúkratrygginga. Ég held að við hefðum öll getað búist við því að (Forseti hringir.) þessi breyting yrði gerð. En markmið mitt er auðvitað að semja við sérgreinalækna um þessa mikilvægu þjónustu.