151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:32]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir ræðu hennar sem var mjög góð. Ég hef rætt þessi mál mikið og vildi óska að þetta væri svona einfalt eins og lagt er upp með en ég hef áhyggjur af því að þetta sé ekki svo einfalt. Tegundum fíkniefna hefur fjölgað mjög mikið, þau eru í kringum 250. Spurning mín til þingmannsins er þess vegna: Hvað er neysluskammtur? Getur þingmaðurinn sagt okkur hvað neysluskammtur er? Það kom fram í ræðu ráðherrans áðan að ekki liggur fyrir hvað neysluskammtur er og mér fyndist að það þyrfti að liggja fyrir áður en við lögleiðum neysluskammta fíkniefna.

Þingmaðurinn talaði um vísindi, að vísindum hefði fleygt mikið fram í þessum málum. Gæti hv. þingmaður útskýrt það aðeins betur fyrir mér? Síðan er það spurningin: Nú er mikið minnst á önnur lönd sem hafi stigið svipuð skref, minnst á Noreg og Portúgal, og ég er búinn að lesa mér til í umsögnum að það er ekki alveg sambærilegt. Hefði ekki verið betra að stíga skrefið í þessa átt, því að ég get alveg verið sammála því að það er mjög vont að fólk fari á sakaskrá, það er bara mjög slæmt, að taka þetta heildstætt, að opna meðferðir upp á gátt þannig að biðlistarnir séu ekki eins og þeir eru, auka fræðslu og vinna betur með löggæslunni? (Forseti hringir.) Lögreglan hefur líka áhyggjur. Ég er búinn að spyrja margra spurninga, ég veit ekki hvort þingmaðurinn kemst yfir að svara þeim.