151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:37]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hvort sem það kemur vísindum við eða ekki er það útgefið að um 20% okkar ánetjast efnum, hvort sem það heitir áfengi eða fíkniefni. Ég hef ekki heyrt áður að það sé ekki út af efninu sjálfu sem viðkomandi verður fíkill heldur út af aðstæðum hans. Þetta hef ég aldrei heyrt áður. Ég hef aftur á móti heyrt að þeir sem ánetjast fíkniefnum geri það annaðhvort af því þeir eru með það genetískt í blóðinu eða hafa áunnið sér það með neyslu. En hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því, það kom ekki fram í svari þingmannsins, hvað neysluskammtur er? Getur þingmaðurinn sagt mér það? Hvað er neysluskammtur? Það er mjög misjafnt hvað einstaklingar þola mikið af efnum í líkamann. Sá sem er ekki í neyslu eða er að byrja neyslu þolir mun minna og svo er það líka einstaklingsbundið. Einn skammtur getur drepið fólk, það er bara þannig. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af þessu? Hv. þingmaður kom líka inn á það að við yrðum að hjálpa þeim sem eru að leita sér hjálpar. Ég hef oft talað um og lagt fram mál þess efnis, spurt hæstv. heilbrigðisráðherra hvort við ættum ekki að hafa meðferðina þannig að fólk þurfi ekki að vera á biðlistum í fleiri mánuði, jafnvel ár eftir að komast í meðferð. Glugginn er mjög lítill sem viðkomandi er tilbúinn til að leita sér hjálpar út um og þá þarf hjálpin að vera til staðar. Það kemur ekki lögleiðingu fíkniefna við, ég get ekki sett samasemmerki þar á milli.