151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er vel inni í undirheimamálum. En ég var að tala um að það væru þarna 250 efni undir. Það sem ég var aðallega að tala um í sambandi við aukna fíkn í efni — ég tiltók kannabis, það er búið að rækta meiri fíkniþátt inn í kannabisefnin sem eykur t.d. hættu á geðhvarfasýki. Hún hefur aukist hjá þeim sem neyta kannabisefna. (HHG: En eru þau ekki bönnuð?) — Hvaða máli skiptir það þó að þau séu bönnuð? Fíknin er sú sama. (ÞSÆ: Af hverju ertu þá á móti því að leyfa það?)

(Forseti (ÞorS): Hv. þingmaður hefur orðið.)

Já, það vill nú þannig til hæstv. forseti, að oft þegar maður er í andsvörum við þingmenn Pírata þá eru einhvers konar útúrsnúningur og hælkrókur og gildrur lagðar þannig að viðkomandi mismæli sig helst. Ég held að ég geti ekki sagt það nógu oft að ég sagði það í ræðu minni að ég hefði áhyggjur af þessu máli. Ég get ekki séð að það segi þá sögu að ég vilji refsingar. Ég hef aldrei sagt það, bara aldrei. En ég get ekki séð að sú aðferð sem er í þessu frumvarpi geri það gagn sem ætlast er til að hún geri. Það eru þær áhyggjur sem ég hef. Ég treysti mér ekki til að svara þessum spurningum vegna þess að þær eru í mínum huga tómur útúrsnúningur.