152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stöðu geðheilbrigðisþjónustu hér á landi lýsir ófremdarástandi sem ekki verður lengur unað við. Áratugum saman hafa geðheilbrigðismálin verið olnbogabarn stjórnmálanna og heilbrigðiskerfisins. Úr sér genginn húsakostur geðdeildanna, ónóg nýliðun í heilbrigðisstéttum, gloppur í þjónustu vegna kerfa sem tala ekki saman og ónógt samtal innan heilbrigðiskerfisins og takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga bera þessa glöggt vitni. Einnig þarf að leysa praktísku málin, eyða lagalegri óvissu um skil upplýsinga til landlæknis og samræma skráningu atvika, koma upp miðlægum biðlistum og þannig mætti áfram telja. Kostnaður ófullnægjandi geðheilbrigðisþjónustu er mikill og sár fyrir samfélagið en mestur er hann fyrir þau sem glíma við geðrænar áskoranir og aðstandendur þeirra. Alvarlegir geðsjúkdómar geta verið banvænir en þeir þurfa ekki að vera það. Það er hægt að fækka sjálfsvígum hér á landi. Það er hægt að styðja einstaklinga með skerta starfsgetu út á vinnumarkaðinn. Það er hægt að draga úr nýskráningu örorku hjá ungu fólki vegna geðgreininga og það er hægt að brúa bilið sem myndast í geðheilbrigðisþjónustunni við það eitt að einhver verður 18 ára. Gleymum því ekki, forseti, að misrétti og ójöfnuður grefur undan geðheilbrigði. Félagslegir þættir skipta líka máli; tryggur efnahagur, húsnæðisöryggi og frelsi frá ofbeldi. Ég get fullvissað meiri hlutann á Alþingi um að Samfylkingin mun styðja allar nauðsynlegar umbætur á geðheilbrigðiskerfinu og hækkuð fjárframlög til þess. Heill og hamingja og geðheilbrigði landsmanna er í húfi.