152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar og athvinnuréttindi útlendinga.

597. mál
[14:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Ákvæði þessa frumvarps voru upphaflega lögð fram á 151. löggjafarþingi sem hluti af stærra frumvarpi um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, en það frumvarp náði ekki fram að ganga. Í samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og utanríkisráðuneytið eru lagðar til breytingar varðandi rétt ungs fólks til dvalar og atvinnu hér á landi vegna gagnkvæmra samninga Íslands við erlend ríki. Með frumvarpinu er brugðist við gildandi samningsskuldbindingum Íslands vegna samnings sem gerður var við Bretland þegar Bretland sagði sig úr Evrópusambandinu. Þá er íslenskum stjórnvöldum gefið aukið svigrúm varðandi aldur og tímalengd dvalar þegar kemur að samningsviðræðum við önnur ríki um atvinnudvöl ungs fólks. Ákvæðin eru sett með það að markmiði að veita ungu fólki tækifæri til að koma til landsins, dvelja hér og stunda atvinnu í þeim tilgangi að kynnast lífsháttum og víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn. Að sama skapi gera samningar Íslands við erlend ríki ungu fólki frá Íslandi kleift að upplifa slíkt hið sama í öðrum ríkjum.

Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að aldursbil ungs fólks sem getur fengið dvalar- og atvinnuleyfi vegna gagnkvæmra samninga Íslands við erlend ríki verði lengt úr 18–26 árum í 18–31 ár . Þá er hins vegar lagt til að unnt verði að framlengja slík dvalar- og atvinnuleyfi upp í tvö ár ef samningur við erlend ríki gerir ráð fyrir því. Dvöl á grundvelli ákvæðisins gæti því numið allt að tveimur árum í stað eins árs líkt og er nú.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.