152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

útlendingar.

598. mál
[14:27]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að verið sé að láta kappið bera fegurðina ofurliði í þessu frumvarpi, að verið sé að fara aðeins of geyst í þessa tilfærslu. Ef við grípum niður í greinargerðina þá stendur:

„Ekki liggur fyrir, á þeim tíma er frumvarp þetta er lagt fram, hvaða stjórnvald muni sinna umræddri þjónustu af hálfu ráðuneytisins.“ — Þ.e. þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrir hönd félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins samkvæmt 33. gr. útlendingalaga.

Nú vill svo til að í gær barst svar frá félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá hv. þingkonu Þórunni Sveinbjarnardóttur um einmitt þessi atriði. Hún spyr hvort tekin hafi verið ákvörðun um það hvaða aðili eða stofnun taki við þjónustuhlutverki Útlendingastofnunar við umsækjendur um alþjóðlega vernd eftir 1. júlí næstkomandi. Það er stutt í þetta, sex vikur þangað til. Í svarinu kemur fram að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vinni nú að því að greina þau verkefni sem heyra undir ráðuneytið og falla undir málaflokka er snerta innflytjendur og flóttafólk. Svo segir, með leyfi forseta:

„Úttekt á ólíkum verkefnum, samtal við hagaðila og tillögur að framtíðarfyrirkomulagi eru í vinnslu hjá ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig m.a. á sviði stefnumótunar. Á undanförnum mánuðum hafa ráðgjafar fyrirtækisins hitt helstu hagaðila í þeim verkefnum sem falla hér undir með það að markmiði að greina styrkleika, veikleika og tækifæri innan málaflokksins. Þess er að vænta að tillögum verði skilað til ráðuneytisins á allra næstu dögum. Á grundvelli þeirra tillagna mun fara fram frekari stefnumótun innan ráðuneytisins við að ákveða hvaða stofnun eða aðili taki við þjónustuhlutverki Útlendingastofnunar við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá 1. júlí 2022.“

Þetta hljómar ekki eins og þessi vinna sé langt komin. Reyndar hljómar þetta svolítið eins og hún sé bara á algeru frumstigi þótt við séum núna að ræða hér frumvarp um þessa yfirfærslu.

Annars ætla ég ekki að hafa þetta mikið lengra en hún vakti athygli mína áðan orðanotkun dómsmálaráðherra þegar hann talaði um brotamenn í því samhengi, kallaði það fólk sem yfirgefur ekki landið á tilskildum tíma brotamenn. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra myndi nota sama orð t.d. yfir fólkið sem hefur verið staðið að efnahagsbrotum, verið dæmt fyrir efnahagsbrot, en fær núna kaupa Íslandsbanka. Eru þetta brotamenn? Er við hæfi að tala svona um fólk? Oftast er þetta bara fólk sem er í rauninni að berjast fyrir lífi sínu, er að flýja ömurlegar aðstæður og gerir allt sem það getur til að búa sér og börnunum sínum betra líf.