152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og ég fagna því að þetta mál sé loksins komið fram. Ég get tekið undir það sem fram kom í máli ráðherra hér rétt í þessu, þ.e. að hann hefði gjarnan viljað sjá þetta frumvarp koma fram fyrr. Mér þætti fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvers vegna þetta mál var ekki sett í forgang á síðasta kjörtímabili. Hin spurning mín lýtur að því að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamningsins 2019 kemur fram að ákvæðum húsaleigulaga verði breytt og sérstaklega hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ekki er gert ráð fyrir leigubremsu eða leiguþaki af einhverju tagi í þessu frumvarpi eða t.d. heimildum til sveitarfélaga til að hafa slík afskipti af leigumarkaðnum. Megum við eiga von á slíku frumvarpi eða öðrum þingmálum sem koma betur til móts við það sem stjórnvöld skuldbundu sig til við gerð lífskjarasamnings 2019? Er hæstv. ráðherra hlynntur því að taka upp leigubremsu af einhverju tagi, verja leigjendur með beinum hætti fyrir óhóflegum hækkunum?