152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:17]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að í andsvörum um frumvörp geta menn tekið umræðu um hvað sem er. Ég ætla svo sem ekki að elta ólar við allar yfirlýsingar hv. þingmanns og túlkanir hans á mínum orðum. Ég ætla hins vegar að segja þetta um stofnframlögin — við höfum tekið þá umræðu áður, við einhverja hv. þingmenn Samfylkingarinnar, ég held við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson: Ástæðan fyrir því að við höfum ekki byggt meira í stofnframlögum er ekki fyrst og fremst skortur á fjármagni heldur skortur á lóðum. Þeim fjárframlögum sem hafa verið send til Bjargs og fleiri slíkra félaga hafa þau þurft að skila til HMS vegna þess að þau hafa ekki fengið lóðir. Þó að það sé komið aftur og aftur upp í þennan ræðustól og því haldið fram að það eina sem þurfi sé að auka fjármagn í stofnframlög og þá sé vandinn leystur þá er það ekki þannig. Þess vegna erum við að setjast yfir það núna, í húsnæðishópi á vegum þjóðhagsráðs, hvaða ástæður eru fyrir því að við höfum ekki byggt nóg. Það er ekki vegna þess að það vanti fjármagn.

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr. Við ætlum að auka framboð á húsnæði, við ætlum að auka framboð á lóðum. Ég hef talað í þessum ræðustól um að ein leið til þess sé að gera einhvers konar rammasamning við sveitarfélögin í landinu þannig að nægjanlegt framboð sé af byggingarhæfum lóðum á næstu fimm árum og stefnumótandi húsnæðisstefna, sem verður lögð fram í haust, til 15 ára, með aðgerðaáætlun til fimm ára, gerir það að verkum að við sjáum fram á að geta framleitt 4.000 lóðir á ári í fimm ár eða um 20.000 íbúðir. (Forseti hringir.) Ég held að það sé kannski það mikilvægasta og hluti af þeim íbúðum þarf augljóslega að vera á leigumarkaði.