152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[17:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn byrja á að þakka fyrir þá góðu vinnu sem byggðaáætlun er, hún er mikilvægt og gott plagg. Ég held að vinnan við að útbúa hana og fjalla um hana, samráðið sem um hana var haft, hafi strax mikil og góð áhrif. Við erum því hér með mjög gott mál í höndunum. Samþykktin ein er því ekki aðalatriðið heldur er það þessi vinna og hugsun; við erum að búa til þessa mælikvarða og ræða hvernig við komumst áfram í byggðamálunum. Ég tek bara undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, það þarf að hafa alla þessa þætti í huga, að það sé enginn út undan, að allir hafi jöfn tækifæri og að við séum að fylgja tíðarandanum í hvert skipti við að byggja það upp. Við tökum það vel til skoðunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Það sem er líka gott við byggðaáætlun er markmiðið um að samþætta áætlanir. Það þarf líka að samþætta stefnur og áherslur og fella niður síló á milli málaflokka, ráðuneyta og stofnana o.s.frv. Mér finnst við oft sjá þess skýr merki að við erum með mörg markmið, margar áætlanir og margar stefnur en einhvern veginn fara hljóð og mynd ekki alltaf saman. Það er því svolítið stóra verkefnið að allar áherslur stjórnvalda hverju sinni tali meira saman. Þetta er hægt að nefna í mörgum málum. Í byggðamálum hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga og löggjöf og annað til að hvetja til sameiningar sveitarfélaga, styrkja byggðirnar með sameiningu, og það er vel. Það er gott að gera öflugri stjórnsýslueiningar og annað. En til þess að það nái fram að ganga þurfum við líka að byggja upp innviðina sem tengist þá samgönguáætluninni. Það eru margir mjög mikilvægir samgönguinnviðir sem eru forsenda þess að hægt sé að sameina sveitarfélögin. En samgönguinnviðirnir eru kannski það sem hraðast eflir byggðirnar og eykur jafnrétti og eflir tækifærin, eykur aðgengi fólks að velferðarþjónustu eða grunnþjónustu eins og námi o.s.frv., þannig að allir sitji við sama borð. Samgöngurnar eru líka mikilvægar til að styrkja atvinnusóknarsvæðin, dreifingu ferðamanna og margt annað þannig að þetta þarf allt að tala saman.

Við erum líka með orkustefnu. Við erum með áform um orkuskipti sem hv. þm. Oddný Harðardóttir kom einmitt inn á líka. Til þess að orkuskiptin geti farið fram þarf dreifi- og flutningskerfi raforku að vera í lagi og það þarf að vera til næg orka. Það kom einmitt fram í enn einni áætlun og stefnumörkun stjórnvalda, í grænbókinni, um orkumál. Þar var einmitt líka komið inn á byggðamálin og að allir sitji við sama borð og orkuöryggi og talað var um hljóð og mynd. Við erum með stefnumörkun um orkuskipti; við erum að tala um raforkuöryggi; við erum með græna iðngarða; við erum með græna dregilinn; við erum með nýsköpunarstyrki í grænum orkulausnum og þannig mætti áfram telja. En það vantar bara smáatriði upp á og það er að við eigum ekki næga orku til að fylgja öllum þessum stefnum eftir því að okkur hefur ekki tekist að komast nógu mikið áfram í að afla orkunnar. Sú orka sem þó er til, og hægt væri að nýta betur, kemst ekki um landið af því að flutningskerfið er ekki tilbúið heldur. Það var bara mál hér á dagskrá á undan þessu máli til að reyna að bregðast við því. Nákvæmlega það sama og við erum að fjalla um hér kom einmitt svo skýrt fram í þessari grænbók.

Mér fannst það mjög athugunarvert við grænbók hæstv. umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra að þeir sem kölluðu helst eftir aukinni orkuframleiðslu og auknu aðgengi að raforku voru ekki stórkaupendur að orkunni eða orkuframleiðendurnir heldur landshlutasamtök sveitarfélaga. Það voru íbúarnir, fulltrúar íbúanna, sem sögðu: Það er alger forsenda, svo okkar byggð dragist ekki aftur úr í velferðarsamfélaginu, í atvinnuuppbyggingunni, í þróuninni, að við fáum aðgengi að orkunni.

Það sem ég hef verið að reyna að undirbyggja hér er það að ef við setjum okkur markmið einhvers staðar þá þurfum við að fylgja því eftir í öllum öðrum áætlunum og aðgerðum stjórnvalda. Það er ekki nóg að segja það bara á einum stað og halda að það skili sér þannig. Það verður að vera í öllum hinum áætlununum, hvort sem um er að ræða innviðaáætlun, samgönguáætlun, byggðaáætlun, sem við fjöllum um hér, í orkustefnunni og skuldbindingum um orkuskipti. Við ætlum að hafa hér öflugt velferðarsamfélag og einhvern veginn þarf að fjármagna það. Svo eru það þessir grunninnviðir. Ef innviðirnir eru í lagi þá byggist svo mikið annað upp. Það hvetur til þessara sameininga, það stækkar vinnusóknarsvæðin. Þessir grunninnviðir gera fólki kleift að flytja og byggja upp sitt fyrirtæki, þar sem hagkvæmast er að reka það, og skapa hagvöxtinn og allt þetta. Svo er það eitt atriði enn og það eru oft lagaflækjur í þessu. Það er oft sem fólk vill byggja upp atvinnustarfsemi en kemst ekki í gegnum frumskóg báknsins, þ.e. að fá starfsleyfi eða fá að byggja eða fá að nota nýsköpunina sem við styrktum það til. Við setjum pening í sóknaráætlun, setjum peninginn í Nýsköpunarsjóð eða Tækniþróunarsjóð o.s.frv. en einhverjar innkaupareglur hjá ríkinu eða leyfisveitingareglur eða skipulagsreglur, eða hvað sem það kann að vera, hleypir verkefninu aldrei af stað.

Sem landsbyggðarþingmaður fer ég náttúrlega mikið um landið en svo hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins líka farið árlega í hringferð um landið og hitt fólk á vettvangi. Ef ég súmmera upp í eina setningu það sem fólk segir við okkur úti á landi, og tengist þá byggðaáætluninni og þeirri byggðastefnu sem við erum að tala um hérna, þá segir fólk: Hafið bara grunninnviðina í lagi, alla þessa grunninnviði. Þá erum við að tala um vegi, rafmagn, fjarskipti, mennta- og heilbrigðiskerfi. Hafið þetta í lagi og hættið svo að þvælast fyrir okkur og við skulum sjá um rest. Við getum bjargað okkur sjálf. Þið hafið bara grunninnviðina. Takið allar þessar flækjur og boð og bönn frá. Við þurfum enga ölmusu. Við þurfum bara grunninnviði. Við þurfum að fá að vera í friði og þá skulum við sjá um að byggja upp atvinnuna og byggðina og skapa verðmæti fyrir þetta þjóðarbú svo að hægt sé að hafa öflugt velferðarkerfi, auka útflutningsverðmæti og annað slíkt. Það er bara þetta sem þarf að hafa í huga, að hafa hljóð og mynd og ekki vera að þvælast fyrir duglegu fólki um byggðirnar heldur gefa því grunninnviðina til að byggja upp bjarta framtíð í þessu landi.