152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[17:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um sóttvarnir sem ætlað er að leysa af hólmi sóttvarnalög nr. 19/1997. Þann 18. júní 2021 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra starfshóp sem falið var að skrifa drög að frumvarpi til heildarlaga um sóttvarnir og skilaði hópurinn drögum að frumvarpi þann 1. febrúar sl. Starfshópinn skipuðu fulltrúar helstu aðila sem hlutverki hafa að gegna þegar kemur að opinberum sóttvarnaráðstöfunum. Í starfshópnum sátu aðilar frá heilbrigðisráðuneytinu, embætti landlæknis, dómsmálaráðuneytinu, sóttvarnalækni, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sóttvarnaráði og embætti ríkislögreglustjóra. Frumvarpið sem ég mæli fyrir hér í dag er samið af þeim starfshópi.

Með nýjum lögum er ætlunin að skýra betur þau úrræði sem sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra geta gripið til vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi, innan lands og vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Markmið lagasetningarinnar er að vernda almannaheill, þ.e. vernda samfélagið og líf og heilsu einstaklinga gegn smitsjúkdómum og annarri vá sem lögin taka til. Einnig er hér verið að skýra þær heimildir sem stjórnvöld hafa til opinberra sóttvarnaráðstafana í samræmi við kröfur lögmætisreglunnar og lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar. Þá er jafnframt verið að einfalda og skýra stjórnsýslu sóttvarna.

Gildandi sóttvarnalög eru frá árinu 1997 en töluverðar breytingar voru gerðar á lögunum á liðnu ári þar sem nauðsynlegt þótti að skýra ýmis ákvæði laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir í ljósi fenginnar reynslu af heimsfaraldri Covid-19. Við þessa endurskoðun á liðnu ári, 2021, var sérstaklega horft til álitsgerðar Páls Hreinssonar sem hann vann að beiðni stjórnvalda og fjallar um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana í ljósi meginreglna stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæða. Endurskoðun ákvæða um stjórnsýslu sóttvarnalaga var ekki á verksviði starfshópsins í þessari atrennu, hópsins sem vann að endurskoðuninni. Hópurinn benti engu að síður á að tilefni væri til slíkrar endurskoðunar í tengslum við áformaða heildarendurskoðun laganna þegar sæi fyrir endann á heimsfaraldrinum. Almennt má segja að gildandi sóttvarnalög hafi reynst okkur vel í heimsfaraldrinum en hér liggur nú fyrir heildarendurskoðun til þess að skýra tiltekna þætti í stjórnsýslu sóttvarna og setja heimildir til sóttvarnaráðstafana fram með skýrari hætti.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að rekja helstu atriði frumvarpsins og sjónarmið sem þar liggja að baki.

Í fyrsta lagi er frumvarpinu ætlað að tryggja þau réttindi sem varin eru af stjórnarskrá með því að kveða skýrt á um til hvaða ráðstafana megi grípa sem skerða réttindi, í hvaða tilvikum og með tilliti til meðalhófssjónarmiða. Þannig er markmiðið að tryggja enn betur að slíkar skerðingar styðjist við viðhlítandi lagaheimild og séu ekki framkvæmdar nema í þágu almannahagsmuna eða til verndar heilsu eða réttindum annarra. Það er mikilvægt að fram komi að heimildir sóttvarnalaga til skerðingar á réttindum, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, hafi þann tilgang að tryggja líf og heilsu fólks sem eru veigamestu verndarhagsmunir samfélagsins og njóta verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. Jafnframt hefur verið talið að á stjórnvöldum hvíli frumkvæðisskylda að stjórnlögum til að bregðast við til verndar lífi og heilsu fólks ef ljóst er að bein og fyrirsjáanleg ógn steðji að því.

Í fyrrnefndri álitsgerð Páls Hreinssonar, um heimildir til sóttvarnaráðstafana, segir m.a. að opinberar sóttvarnaráðstafanir geti takmarkað mannréttindi sem vernduð eru af mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Í sumum tilvikum sé nægilegt að slíkar takmarkanir styðjist við sett lög svo þær teljist heimilar, en í öðrum tilvikum verði þær að vera í þágu almannahagsmuna til verndar heilsu eða vegna réttinda annarra svo að þær séu heimilar. Að lokum segir að þeir almannahagsmunir að verjast farsóttum til verndar lífi og heilsu manna teljist falla undir þær undanþágur sem kveðið er á um í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Þar er m.a. vísað til 1. mgr. 67. gr. um frelsissviptingu, einnig takmarkana á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sem fram koma í 71. gr., og takmarkana á atvinnufrelsi, sem fram koma í 75. gr. stjórnarskrárinnar. Sama megi segja um ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að sett verði sérstök markmiðsákvæði í sóttvarnalög sem og sérstakt ákvæði um þá sjúkdóma sem lögin taka til. Lögð er til ákveðin stigskipting sjúkdóma þar sem í fyrsta lagi eru tilteknir smitsjúkdómar, í öðru lagi alvarlegir sjúkdómar og í þriðja lagi samfélagslega hættulegir sjúkdómar. Lagt er til að heimildir stjórnvalda til sóttvarnaráðstafana skuli taka mið af framangreindri stigskiptingu sem er sambærilegt því sem gildir t.d. í Danmörku. Þannig megi einungis grípa til veigamestu ráðstafana þegar um samfélagslega hættulegan sjúkdóm er að ræða.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu sóttvarna. Þannig er lagt til að sóttvarnalæknir verði skipaður af ráðherra líkt og landlæknir og aðrir forstöðumenn stofnana og að ábyrgð hans á framkvæmd sóttvarna heyri beint undir yfirstjórn ráðherra en ekki landlækni. Enn fremur verði sett á laggirnar nýtt fjölskipað stjórnvald, þ.e. sérstök farsóttanefnd. Hlutverk hennar verði að gera tillögu til ráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma og tillögu um skilgreiningu sjúkdóms samkvæmt stigskiptingu laganna, þ.e. hvort sjúkdómur falli undir það að vera samfélagslega hættulegur. Samkvæmt frumvarpinu verður sóttvarnaráð í núverandi mynd lagt niður og verkefni ráðsins fært til sóttvarnalæknis og farsóttanefndar. Enn fremur er lögð til sérstök heimild sóttvarnalæknis til að kveða sér til ráðgjafar sérfræðinga vegna þeirra verkefna sem falla undir hlutverk sóttvarnalæknis.

Í fjórða lagi eru ýmsar breytingar gerðar frá gildandi lögum á þeim kafla frumvarpsins sem fjallar um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Einstök ákvæði eru brotin upp og framsetning þeirra einfölduð. Jafnframt eru settar tilteknar skorður við tímalengd opinberra sóttvarnaráðstafana. Að lokum er lagt til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt og að viðurlagaákvæði laganna verði uppfærð í samræmi við löggjafarþróun síðari ára.

Eins og ég sagði áðan tel ég að gildandi sóttvarnalög hafi reynst okkur vel í heimsfaraldrinum. Covid-19 hefur reynt á flesta þætti laganna en eins og ég gat um áðan voru tilteknar breytingar, sem þóttu mikilvægar og nauðsynlegar, gerðar á þeim á liðnu ári. Þó má öllum vera ljóst að fenginni reynslu að beiting sóttvarnalaga getur haft og hefur víðtæk áhrif á daglegt líf fólksins í landinu og raunar á alla þætti samfélagsins, innviði þess, atvinnulíf, menningarlíf og flestar okkar athafnir frá degi til dags og veruleg áhrif á félagslíf og samskipti og allt þar með talið. Ég gæti örugglega tínt fleira til, en við höfum öll upplifað þetta, virðulegi forseti. Við skulum jafnframt hafa hugfast hver markmið sóttvarnalaga eru og hve mikilvægt er að þau þjóni tilgangi sínum þegar á reynir, þ.e. að vernda almannaheill, samfélagið og líf og heilsu þeirra einstaklinga sem samfélagið byggja. Löggjöf um sóttvarnir snertir nánast á öllum þáttum samfélagsins þegar á reynir og beiting laganna gengur í mörgum tilvikum nærri stjórnarskrárvörðum mannréttindum okkar. Hlutverk okkar er að gera sóttvarnalöggjöfina sem best úr garði til að tryggja að markmiðum laganna verði sem best náð en jafnframt að ekki sé gengið nær stjórnarskrárvörðum mannréttindum en tilefni er til og nauðsyn krefur.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert hér grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og legg til að lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.