152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir spurninguna. Ég held að þetta verði örugglega nokkuð rætt á vettvangi hv. velferðarnefndar. Frumvarpið fór í samráðsgátt og ég veit af athugasemdum þaðan og þetta hefur verið rætt hér í þinginu. Það er verið að stíga nokkur skref hér en lagt er til að þegar ráðherra hefur tekið ákvörðun um setningu reglna um sóttvarnir vegna samfélagslega hættulegs sjúkdóms — þarna kemur jafnframt inn þetta nýmæli um stigskiptingu sjúkdóma. Það er miklu skýrara í þessu frumvarpi hvaða ráðstöfunum er hægt að beita í samhengi við það hvernig sjúkdómur er skilgreindur af hálfu farsóttanefndar og sóttvarnalæknis. Hér er það býsna skýrt að þegar slíkar aðgerðir eru hertar skal ráðherra, eftir atvikum í samráði við forsætisnefnd, án tafar kynna velferðarnefnd Alþingis forsendur þeirrar ákvörðunar og röksemdir. Það er skref í áttina að því sem hv. þingmaður kemur inn á hér. Velferðarnefnd getur enn fremur óskað eftir kynningu ráðherra þótt reglum hafi ekki verið breytt, svo sem um röksemdir fyrir því að halda aðgerðum óbreyttum eða létta þeim. Hv. þingmaður nefndi Danmörku og einnig Bretland og auðvitað eru alltaf til staðar spurningar, það eru kostir og gallar við allt í þessum heimi. Kostirnir hjá okkur hafa þó, held ég, komið skýrt fram í gegnum þennan faraldur, við höfum verið tiltölulega fljót að bregðast við með litla stjórnsýslu og skýrt ákvörðunartökuferli. En á móti hefur komið að þingið hefur kannski komið seint að umræðu um tilteknar ákvarðanir.