152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil fyrst nefna að þetta frumvarp kemur fram á ágætum tíma. Við erum nýbúin að ganga í gegnum heimsfaraldur og sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda og erum þess vegna í góðum færum til að ræða þau álitamál sem við hljótum að ræða í velferðarnefnd. Við erum nýbúin að fara í gegnum þessa hluti og þess vegna segi ég að þetta frumvarp komi fram á góðum tíma. En álitamálin sem mér finnast blasa við eru nokkur og hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi þau hér. Fyrst er það aðkoma Alþingis. Um það hefur svolítið verið rætt hér í þingsal, hvort hún eigi að vera meiri eða minni. Í 18. gr. er fjallað um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar ráðherra hefur tekið ákvörðun um setningu reglna skv. 28. og 30. gr. og þegar þær eru hertar skal hann, eftir atvikum í samráði við farsóttanefnd, kynna velferðarnefnd Alþingis án tafar ákvörðun sína, forsendur hennar og röksemdir. Velferðarnefnd getur enn fremur óskað eftir kynningu ráðherra þótt reglum hafi ekki verið breytt, svo sem um röksemdir fyrir því að halda aðgerðum óbreyttum eða létta á þeim.

Ráðherra skal, eftir atvikum í samráði við aðra ráðherra í ríkisstjórn, upplýsa Alþingi um sóttvarnaaðgerðir með mánaðarlegri skýrslugjöf enda hafi aðgerð varað lengur en í tvo mánuði.“

Frú forseti. Ég trúi því að í velferðarnefnd verði þetta heilmikið rætt. Starfshópurinn sem undirbjó þetta frumvarp vísar í ný farsóttalög í Danmörku sem voru samþykkt í fyrra. Þar er fjallað um aðkomu danska þjóðþingsins að tilteknum sóttvarnaráðstöfunum. Meginregla þeirra laga er að ráðherra geti sett reglur vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma sem fela m.a. í sér samkomutakmarkanir og ráðstafanir á landamærum. Hann getur ekki gert það nema hafa lagt efni reglnanna fyrir þingnefnd og að þingnefndin sé ekki mótfallin þeim. Víkja má frá því skilyrði ef bráð ógn við lýðheilsu er yfirvofandi, en þá þarf ráðherra að leggja reglurnar fyrir þingnefnd án tafar eftir að þær hafa verið settar og sé þingnefnd mótfallin reglunum ber að fella þær úr gildi. Þarna er greinilegt að það er þingið í Danmörku sem ber hitann og þungann af þessum ákvörðunum, ákvörðunarvaldið er þar, um opinberar sóttvarnaráðstafanir, en að mati þess starfshóps sem undirbjó frumvarpið var ekki ástæða til að ganga svo langt hér á landi. Þau velta m.a. upp ábyrgðinni: Hver ber þá ábyrgð? Það er þá ekki ráðherrann sem ber ábyrgð á ákvörðunum heldur er það þingið. Það var enn fremur mat starfshópsins að með því að færa þessar ákvarðanir til Alþingis yrði alger eðlisbreyting á forsendum ákvarðananna frá því að þær byggðust að grunni á faglegum sjónarmiðum yfir á vettvang stjórnmála. Mér finnst þetta reyndar svolítið sérstakt orðalag. Þó að ráðherra sé vissulega fær um að taka faglegri ráðgjöf erum við hér í þinginu líka fær um það.

Það er mikilvægt, frú forseti, að með þessum lögum fáum við sem höfum eftirlitshlutverki að gegna með einhverjum hætti að koma að ákvörðunum um sóttvarnir. Það er hins vegar spurning í hvaða formi það eigi að vera. Auðvitað geta þær aðstæður komið upp að grípa þurfi til ráðstafana einn, tveir og þrír og það sé ómögulegt að kalla saman þing til að samþykkja eða synja þeim aðgerðum. En það þarf samt einhvern veginn að tryggja aðkomu Alþingis og a.m.k. umræðu um sóttvarnaaðgerðir og afleiðingar þeirra fyrir efnahag og heilsu landsmanna. Það er talað um stjórnsýsluna í kringum það að ráða sóttvarnalækni, að hann verði skipaður af ráðherra beint. Einhverjir hafa fett fingur út í þetta og sagt að það sé skrýtið að vera með landlækni sem er skipaður af ráðherra og líka með sóttvarnalækni sem er skipaður af ráðherra. Er ekki eðlilegra að hafa þetta eins og þetta er núna, að landlæknir skipi sóttvarnalækni? Svo eru það aðrir sérfræðingar sem segja: Þetta er bara fínt. Við skulum hafa þetta svona.

Ein af þeim sem vill ganga lengra er Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sem hefur góða þekkingu á þessum málum. Hún segir að frumvarpið megi ganga lengra og taka bæði starfssvið sóttvarna og lýðheilsu frá landlæknisembættinu og setja á stofn lýðheilsu- og sóttvarnastofnun undir yfirstjórn sóttvarnalæknis. Sigurbjörg telur að slík tilhögun myndi styrkja stofnanalega uppbyggingu og aðhald innan heilbrigðiskerfisins og það má vera. Ég hef trú á því að við í velferðarnefnd förum gaumgæfilega yfir þá hugmynd, bæði eins og hún er sett fram í frumvarpinu og líka umræður um það hvort lengra megi ganga líkt og Sigurbjörg leggur til.

Síðan er það farsóttanefnd sem rætt var um hér og hv. þm. Óli Björn Kárason átti líka orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um það. Ákvörðun um að leggja sóttvarnaráð niður verður örugglega tekin til umræðu og menn munu væntanlega velta því fyrir sér hvort þarna sé einhver uppsöfnuð fagþekking sem muni glatast og það sé verra og ekki nægilega faglegt að grípa í ráð sérfræðinga hér og þar eftir því hvernig vindar blása eða hvaða vandamál eru uppi. En við ræðum það í velferðarnefnd. Hitt er farsóttanefnd. Gert er ráð fyrir að farsóttanefnd sé skipuð með tilnefningum frá þremur ráðherrum og einn án tilnefningar og auk þess skuli sitja í nefndinni landlæknir, ríkislögreglustjóri, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, forstjóri Landspítalans og sóttvarnalæknir. Farsóttanefnd er með annað hlutverk en sóttvarnaráð og bent hefur verið á að kannski sé ekki ráðlegt að hafa farsóttanefnd með svona mikilvægt hlutverk en aðeins með tveimur sérfræðingum, þ.e. sóttvarnalækni og landlækni. Sóttvarnaráð hefur t.d. bent á að ef margir sérhagsmunaaðilar fá sæti í nefndinni gætu orðið hagsmunaárekstrar ef aðrir hagsmunir en sóttvarnir kunni að vega þyngra en æskilegt væri og ráða ákvörðun farsóttanefndar. Ef upp kemur ágreiningur innan nefndarinnar ræður vægi atkvæða úrslitum og vægi sóttvarnalæknis er þá ekki meira en annarra ef atkvæði verða jöfn við afgreiðslu mála. Mér finnst að nefndin þurfi að taka þetta vel til athugunar, hvað þetta gæti þýtt. Við vorum náttúrlega afskaplega heppin með sóttvarnalækni og við fórum að hans ráðum sem betur fer, en í því ljósi veit ég ekki hvort þessi uppstilling er nægilega skynsamleg.

Ef tilkynningar til sóttvarnalæknis um smitsjúkdóma benda til að alvarlegir sjúkdómar breiðist út skal hann þegar í stað gera ráðherra og farsóttanefnd viðvart. Ráðherra skal svo fljótt sem verða má óska eftir afstöðu farsóttanefndar um hvort skilgreina skuli alvarlegan sjúkdóm sem samfélagslega hættulegan og farsóttanefnd er jafnframt heimilt að eigin frumkvæði að leggja til við ráðherra að skilgreina skuli sjúkdóm sem samfélagslega hættulegan. Það má vera, frú forseti, að það sem lagt er upp með um farsóttanefnd, bæði skipan hennar og hvernig hún virkar í samspili við ákvarðanir sóttvarnalæknis, sé of þungt í vöfum og við þurfum að fara yfir það.

Frú forseti. Að lokum vil ég benda sérstaklega á athugasemdir frá umboðsmanni barna. Umboðsmaður barna hefur sérstaklega bent á að fengin reynsla hafi sýnt að heimsfaraldurinn, og ekki síst opinberar sóttvarnaráðstafanir, hafi haft veigamikil og alvarleg áhrif á líðan, stöðu og réttindi barna í íslensku samfélagi. Umboðsmaður telur miður að í áformum heilbrigðisráðuneytisins með þetta frumvarp sé hvorki minnst á börn né barnasáttmálann sem ætti að koma til álita á sama hátt og mannréttindasáttmáli Evrópu. Það er grundvallarsjónarmið barnasáttmálans að taka eigi sérstakt tillit til barna sem viðkvæms hóps og samningurinn tryggir þeim ýmis grundvallarréttindi sem eru jafnvel óháð réttindum fullorðinna. Barnasáttmálinn kveður á um að börn eigi rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á og að taka eigi allar ákvarðanir sem varða heilsu barna út frá heildarmati á því sem þeim er fyrir bestu. Þá sé mikilvægt að börnin fái að taka þátt í ákvarðanatöku sem varðar heilsu þeirra og að mat sé lagt á allar tillögur og breytingar á því sviði sem geta haft áhrif á börn út frá hagsmunum þeirra, réttindum og þörfum. Þannig gerir Barnasáttmálinn kröfu um að áhrif ákvarðana og aðgerða á börn liggi fyrir áður en þær koma til framkvæmda þannig að unnt sé að fyrirbyggja möguleg neikvæð áhrif og grípa til mótvægisaðgerða í þeim tilvikum þar sem ekki er unnt að komast hjá slíkum áhrifum. Umboðsmaður barna telur að þessar kröfur séu ekki uppfylltar í frumvarpinu, a.m.k. ekki eins og það var í samráðsgáttinni. Umboðsmaður barna telur einnig nauðsynlegt að taka sérstaklega fram að ákvarðanir og aðgerðir sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og varða börn eigi að byggja á því sem þeim er fyrir bestu og vill líta til sænsku sóttvarnalaganna í þeim efnum. Þar er fjallað um almenn viðmið í sóttvörnum og segir að allar sóttvarnaaðgerðir sem hafa áhrif á börn eigi að taka sérstakt tillit til þess sem þeim er fyrir bestu. Þá er að mati umboðsmanns barna einnig nauðsynlegt að kveðið sé á um það í frumvarpinu að áður en ráðist er í sóttvarnaaðgerðir sem fyrirsjáanlega hafi áhrif á börn eigi að framkvæma sérstakt mat á áhrifum þeirra á börn. Á það ekki síst við um takmarkanir á skóla- og frístundastarfi. Umboðsmaður barna lýsir sig reiðubúinn til samráðs og ég hef trú á því að velferðarnefnd muni kalla umboðsmann barna til samráðs áður en að þetta frumvarp fer aftur inn í þingsal til 2. umr.

Nú verð ég að viðurkenna, frú forseti, að ég hef ekki lúslesið frumvarpið heldur aðeins skannað yfir það sem ég taldi að kæmi til álita. Auðvitað munum við fara vel og vandlega yfir hverja einustu grein. Hugsanlega hefur frumvarpið tekið ýmsum breytingum til batnaðar frá því að fyrstu drög komu fram. Ef við finnum galla á frumvarpinu berum við, þingmenn í hv. velferðarnefnd, vonandi gæfu til að breyta þeim í rétta átt.