152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur mjög góðar spurningar. Hv. þingmaður kemur inn á fyrsta áhersluþáttinn í þessari stefnumótun. Við getum talað um vegferð þegar við erum að leggja upp með stefnu og sýn. Ég veit að hv. þingmaður, með sína sérþekkingu, er mér sammála um mikilvægi forvarna og geðræktar, áherslu á geðrækt og snemmtæka íhlutun og stuðning við börnin og unglingana, og ávinninginn af því inn í framtíðina þegar við hlúum að geðrækt á öllum aldursstigum. Ég er fullviss um það og þarf ekki að fara yfir það.

En hv. þingmaður spyr hvort það sé á valdsviði heilbrigðisráðherra að setja þetta inn í námskrá. Við getum haft þetta sem markmið í stefnu um heilbrigðisþjónustu og sýn á hana. En það er hárrétt að aðalnámskrá er undir málefnasviði hæstv. barna- og menntamálaráðherra. En þarna komum við líka að því að við þurfum að vinna þessa hluti þverfaglega í stjórnsýslunni og tryggja að það bitni ekki á einstaklingum sem fá þjónustuna að við séum að setja einhverja múra innan kerfanna. Þetta kemur einmitt mjög skýrt fram í skýrslu ríkisendurskoðanda og þarna getum við sett markmiðið og svo fáum við barna- og menntamálaráðherra, sem hefur einmitt lagt drög að þessari vinnu um farsæld í þágu barna, til að huga að þessum þætti í námskrá svo að stefnan gangi upp.