152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[20:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur fyrir tvær prýðisræður og gott innlegg í umræðuna. Hv. þingmaður kom inn á fjölmargar góðar ábendingar sem hafa verið hluti af eldri aðgerðaáætlun og það er rétt. Ég vil bara ítreka að þessi stefnumörkun, sem hvílir til viðbótar á fyrri stefnumótun, þ.e. framtíðarsýn og markmiðum, og geðheilbrigðisþingi sem var mjög öflugt 2020 — við erum bara að horfa á fyrri hluta stefnumörkunarinnar og síðan munu fylgja aðgerðir. Og fjölmargar af þeim ábendingum sem hv. þingmaður fór yfir — ég vildi bara skýra það og þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þessa þætti, m.a. aðbúnaðinn og húsnæðið og hvernig við framfylgjum mælikvörðum og vísindunum og rannsóknum um gagnreyndar aðferðir. Það verður allt hluti af þeim mælikvörðum sem við munum síðan horfa til í þeirri aðgerðaáætlun sem mun fylgja.