153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

bygging nýrrar bálstofu.

[10:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Nýverið bárust fréttir af því að hæstv. dómsmálaráðherra hafi átt í viðræðum við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um byggingu og rekstur nýrrar bálstofu. Bálstofan sem nú er í notkun er komin til ára sinna og þörf á endurnýjun. Svo virðist sem ákvörðun um að hefja viðræður við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma hafi verið tekin án nokkurrar umræðu um málið og hefur það ekki verið lagt í samráðsgátt stjórnvalda. Hefur þetta vakið upp spurningar þar sem Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma eru ekki eini aðilinn sem sóst hefur eftir byggingu nýrrar bálstofu hér á landi. Engar skýringar hafa hins vegar verið gefnar á ákvörðun ráðuneytisins aðrar en þær að ráðuneytið telji ekki tilefni til að gera breytingar á samkomulagi sínu við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að sinni.

Í skýrslu kirkjugarðaráðs frá 2021 segir að á fundi í dómsmálaráðuneytinu í mars 2021 hafi komið fram að framkvæmdastjórn og forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma teldu fjárhagslega útilokað að þau gætu tekið að sér að byggja og reka nýja bálstofu sem lagt hefur verið til að rísi á Hallsholti. Heildarkostnaður við framkvæmdina og nýja brennsluofna var metinn á 1,2 milljarða kr. Aftur á móti hefur nýr óháður valkostur orðið til á síðustu árum. Tré lífsins, frumkvöðlaverkefni sem sópað hefur að sér nýsköpunarverðlaunum og viðurkenningum og hefur þegar tryggt sér bróðurpart þeirrar fjármögnunar sem verkefnið krefst, er sjálfseignarstofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni og hyggst reisa bálstofu með athafnasal og kyrrðarrými í Rjúpnadal í Garðabæ. Tré lífsins er óháð öllum trúar- og lífsskoðunarfélögum og mun vera opið öllum óháð trú, trúleysi eða lífsskoðun. Fyrir liggur að einungis er pláss fyrir eina bálstofu hér á landi. Kostnaðarmat á nýrri baðstofu í Hallsholti er sem fyrr segir 1,2 milljarðar samkvæmt skýrslu kirkjugarðaráðs. Á sama tíma liggur fyrir að fjárþörf Trés lífsins er 500 millj. kr.

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra í fyrsta lagi hvort það sé ekki rétt skilið að kostur Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma sé mun kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð. Ef svo er, (Forseti hringir.) hvers vegna kýs dómsmálaráðuneytið þann valmöguleika án nokkurrar umræðu um málið?