153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

bygging nýrrar bálstofu.

[11:00]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Fram hefur komið að sérstaða tillögu Trés lífsins sé m.a. sú að ekki verði lengur þörf á því að kaupa stóra og dýra líkkistu til bálfararinnar líkt og raunin er í dag. Nú er einskis getið um tekjumyndandi starfsemi í eigu þingmannsins sjálfs í hagsmunaskrá hæstv. dómsmálaráðherra á vef Alþingis, en samkvæmt nýjustu upplýsingum úr fyrirtækjaskrá Skattsins er hæstv. ráðherra skráður fyrir fyrirtæki nokkru að nafni Mar textil ehf. Svo vill til og sagt hefur verið frá því áður, að Mar textil flytji m.a. inn og selji líkkistur. Fyrirtækið er að öllu leyti í eigu hæstv. dómsmálaráðherra ef marka má ársreikning fyrir árið 2021 sem skilað var fyrir skemmstu. Þá hagnaðist hlutafélagið um 10 millj. kr. árið 2021. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra í hvers eigu Mar textil er í dag og hvort það sé enn í þessum sama rekstri.