153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

bygging nýrrar bálstofu.

[11:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Herra forseti. Já, nú áttar maður sig á hvað er verið að veiða hér. Það er alveg rétt og hefur ekki verið neitt leyndarmál að við hjónin höfum staðið í rekstri í mörg ár. Við höfum gert það alveg frá árinu 1985 og konan mín er framkvæmdastjóri fyrir okkar fyrirtæki í dag, sem heitir Mar textil. Já, já, það hefur komið fram í fréttum áður að m.a. er innflutningur þar líkkistur sem koma þessu máli bara akkúrat ekkert við. (Gripið fram í.) Af veltu upp á tæpar 200 millj. kr. á síðasta ári þá voru líkkisturnar kannski svona 20 milljónir, bara svo því sé haldið til haga. Það eru engin leyndarmál í kringum þennan rekstur af minni hálfu. Ég er víst skráður, held ég, 100% eigandi fyrirtækisins þó að við hjónin höfum auðvitað staðið í þessu saman í gegnum öll árin. Þetta kemur þessu máli ekkert við. Brennsluþjónustan er til staðar og Tré lífsins hefur m.a. sent inn erindi þar sem beðið er um umtalsverða fjárhagsaðstoð til að fara í þessi nýsköpunarverkefni (Forseti hringir.) sem þeir kalla svo, sem er eiginlega þjónusta á veislusölum og slíku í kringum svona brennsluþjónustu. (Forseti hringir.) Það er bara hið besta mál og ég get alveg séð fyrir mér í framtíðinni (Forseti hringir.) að það geti fleiri stundað þennan rekstur en Kirkjugarðar Reykjavíkur, en það kemur bara í ljós.(Gripið fram í.)