Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:46]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Þegar við ræðum um fjölmiðlafrelsi er mikilvægt að hafa í huga að í samfélagi eins og okkar er ólíklegt að frelsi verði afnumið með einu pennastriki. Það er mun líklegra að þrengt verði að fjölmiðlum smátt og smátt í litlum skrefum. Það er t.d. þung atlaga að fjölmiðlafrelsi nú þegar stórfyrirtæki hafa hagað sér eins og frægt er orðið með skæruliðadeild Samherja. Það er næsta víst að slík aðför hafi kælandi áhrif á vilja og getu fjölmiðla til að fjalla um samfélagslega mikilvæg mál. Það er heldur ekki til marks um fjölmiðlafrelsi að þeir hafi verið hindraðir í fréttaöflun á Keflavíkurflugvelli fyrir skömmu þegar írönsk fjölskylda var flutt úr landi. Blaðaljósmyndarar kvörtuðu nýlega undan því að yfirvöld treystu þeim ekki á vettvangi og héldu þeim fyrir utan svæði sem almennt verður að teljast eðlilegt að þeir geti verið á til að sinna störfum sínum. Þegar stjórnmálamenn og aðstoðarmenn ráðherra tala niður störf fjölmiðla og gera lítið úr vinnu þeirra þá er það enn eitt smáa skrefið í átt að minna fjölmiðlafrelsi.

Nýjasta dæmið um það hvernig þrengt hefur verið að svigrúmi fjölmiðla eru nýjar reglur sem hafa gert það að verkum að yfir sex vikna tímabil í umfangsmesta fíkniefnamáli sögunnar hefur ekki verið heimilt að greina frá því sem fer fram í réttarsal. Það er líka hornsteinn lýðræðislegs samfélags að dómsmál séu rekin fyrir opnum tjöldum. Þótt einhverjum kunni að finnast að hvert og eitt þessara dæma sé ekki til marks um að frelsi miðlanna sé skert þá málast upp sú mynd, þegar allt þetta er lagt saman, að talsvert vanti upp á að stjórnvöld hafi nægan skilning á störfum og eðli fjölmiðla.