154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

lækkun lóðarleigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar.

552. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Guðbrandur Einarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um lækkun lóðarleigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar. Meðflutningsmenn mínir að þessari tillögu eru Ásmundur Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Oddný G. Harðardóttir.

Tillagan er einföld og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að veita 25% afslátt af lóðarleigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins.“

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er eftirfarandi texta að finna:

„Íbúar í Reykjanesbæ búa við langhæstu lóðarleigu á landinu eða 2% af lóðarmati, samanborið við 0,5% á Akureyri og 0,2% í Reykjavík. Sveitarfélagið sjálft veitir þó 25% afslátt til þeirra sem leigja af því. Íbúar á Ásbrú“ — sem er gamla varnarsvæðið — „njóta ekki þess afsláttar. Íbúðarlóðir á því svæði fékk ríkið að gjöf við brottför bandaríska hersins árið 2006. Af þeim lóðum er innheimt af íbúum full 2% lóðarleiga fyrir hönd ríkisins. Nemur hún 222 millj. kr. á ári.

Byggðastofnun gefur út skýrslu á hverju ári um fasteignagjöld. Þar kemur m.a. fram að meðaltal lóðarleigu á Íslandi, af viðmiðunarstærðinni 808 m2, sé 49.435 kr. Í þessum samanburði er Reykjanesbær langt frá meðaltalinu, þar sem lóðarleiga reiknast hæst á landinu í Keflavík, 149.655 kr., og í Njarðvík, 139.275 kr. Þau sem greiða lóðarleigu til sveitarfélagsins og njóta 25% afsláttar greiða hins vegar 112.241 kr. í Keflavík og 104.456 kr. í Njarðvík.

Í svari fjármála- og efnahagsráðherra um lóðarleigu á lóðum í eigu ríkisins, frá 5. september 2023 (þskj. 2264, 678. mál), segir að lóðarleiga ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar sé almennt 2% af lóðarmati í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins. […]

Flutningsmenn leggja því til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að veita íbúum á lóðum í eigu ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar sama 25% afslátt af lóðarleigu og þeir íbúar sem leigja af sveitarfélaginu njóta.“

Virðulegur forseti. Þetta mál er búið að vera lengi í skoðun. Ég veit til þess að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafði fyrir mörgum árum síðan forgöngu um að reyna að fá fram lækkun á þessari leigu en það fékkst því miður ekki. Svar ráðuneytisins á þeim tíma var á þann veg að húsin á varnarsvæðinu hefðu verið seld svo ódýrt að þeir myndu þurfa að ná þessu í gegnum lóðarleiguna, sem er að mínu mati algerlega út í hött.

Ég lagði fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta ári, ég held að það hafi verið í janúar í á síðasta ári, en ég fékk nú ekki svar fyrr en um mitt sumar. Þar er fullyrt að lóðarleiga — svo að ég lesi bara upp úr svarinu, með leyfi forseta:

„Lóðarleiga ríkisins í þéttbýli Reykjanesbæjar er almennt 2% af lóðarmati í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins.“

Þetta er fullyrt en síðan stendur neðanmáls með pínulitlu letri undir mynd sem fylgdi svarinu: Ath. Reykjanesbær veitir 25% afslátt til þeirra sem greiða 2% lóðarleigu samkvæmt gjaldskrá.

Þarna er verið að halda því fram að ríkið sé að leggja á þessa 2% lóðarleigu í samræmi við gjaldskrá Reykjanesbæjar. En það hefur orðið breyting. Reykjanesbær hefur verið innheimtuaðili fyrir ríkið á einhverjum hluta held ég og jafnvel fyrir landeigendur sem hafa margir hverjir verið að rukka 2% lóðarleigu líka. Til að hafa samræmda gjaldskrá var farið í að hafa 2% lóðarleigu en veita síðan afslátt. En sveitarfélagið er búið að breyta þessu núna. Nú stendur bara klárt og skýrt í framlagðri gjaldskrá Reykjanesbæjar að lóðarleiga sé 1,5%. Hún er bara 1,5% í Reykjanesbæ. Hún er ekkert annað. Ef ríkið ætlar að vera trúverðugt og standa við það sem er sagt, að lóðarleiga ríkisins sé í samræmi við lóðarleigu Reykjanesbæjar, ætti það að lækka þessa lóðarleigu niður í 1,5%.

Virðulegur forseti. Það sem við erum að horfa á hér og þær upplýsingar sem ég hef um þessa lóðarleigu eru fengnar frá stofnun ríkisins, Byggðastofnun, sem skoðar á hverju ári hvernig þessi mál standa. Þegar maður les og ber saman sveitarfélögin þá slær í augun að horfa á þær tölur sem þarna birtast. Eins og kemur fram í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni þá eru íbúar í Keflavík að borga 149.000 kr. fyrir viðmiðunareign. Í Sandgerði væru þetta 94.000 kr. í samanburði. Nýlega skrifaði íbúi í Sandgerði grein í Víkurfréttir þar sem hann kvartaði yfir þessari háu tölu í Sandgerði en hún er samt 50 og eitthvað þúsund krónum lægri heldur en í Keflavík. Í Vogum er hún bara 42.000, sbr. 149.000, í Grindavík 41.000. Í Kópavogi, sem notar annan álagningarstuðul, væri samsvarandi eign að greiða 17.000 kr. í lóðarleigu. Þetta eru sláandi tölur að lesa, að það sé verið að rukka íbúa Reykjanesbæjar af hálfu ríkisins á svæði sem er kannski ekki í sterkri félagslegri stöðu. Við höfum margfalda lóðarleigu á við það sem verið er að rukka í öðrum sveitarfélögum. Hafnarfjörður borgar 59.000, á móti 149.000, Garðabær 89.000. Öll önnur sveitarfélög eru langt frá því sem er verið að rukka í Reykjanesbæ. Vonandi nær þessi þingsályktunartillaga fram að ganga og við förum að breyta þessu.

Mér finnst að ríkið þurfi að fara eftir því sem hér er verið að ræða um og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu um að samræma a.m.k. lóðarleiguna við gjaldskrá sveitarfélagsins Reykjanesbæjar. Það væri mér að meinalausu og ég myndi fagna því ef ríkið færi niður fyrir það og breytti lóðarleigunni þá eitthvað til samræmis við þau sveitarfélög sem standa í kringum Reykjanesbæ.

Í mínum huga er þetta okur. Í mínum huga er það okur að leggja á slíka lóðarleigu í einu sveitarfélagi sem er í engu samræmi við það sem önnur sveitarfélög eru að gera. Þess vegna ætti ríkisvaldið að taka sér tak og laga þetta. Ríkið getur aldrei og á aldrei að vera mesti okrarinn. Ríkið þarf að gæta sannmælis í þessu og vera sanngjarnt í álagningu á þá íbúa sem búa á svæði sem ríkið fékk gefins. Þeir eru búnir að fá þetta gefins, ríkið er búið að hirða úr þessu svæði á annan tug milljarða í sölu á eignum en skilur svo íbúana eftir með hæstu lóðarleigu á Íslandi.

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem ekki meira um málið að segja. Ég þakka fyrir að félagar mínir hafi verið tilbúnir til að leggja fram þessa þingsályktunartillögu með mér. Ég vænti þess og vonast til þess að við náum þessu í gegn. Að lokinni þessari umræðu legg ég til, virðulegur forseti, að tillögunni verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.