131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[11:51]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér hló hugur í brjósti þegar hv. þingmaður talaði um það í nokkrum vandlætingartóni að möguleikar væru á því að þetta lagaákvæði sem hv. þingmaður vill fella brott bryti í bága við jafnvel tvenn ákvæði stjórnarskrárinnar. Það hefur nú ekki vafist fyrir þeim hv. þingmanni hingað til að koma og dásama lög þó að fyrir liggi að vísir menn, fræðibrekkur hafi sýnt fram á það svart á hvítu að viðkomandi lög brytu ekki ein, ekki tvenn heldur hugsanlega þrenn og jafnvel fern ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá vafðist nú ekki fyrir hv. þingmanni að koma hér og mæra þau ákvæði. Ég á við fjölmiðlalögin sem illu heilli voru samþykkt en sem betur fer afnumin aftur á síðasta ári.

Hv. þingmaður er búinn að flytja töluverð rök fyrir því að þessi ákvæði, sem hann vill að brott séu felld, brjóti gegn ákvæði um félagafrelsi. Að vísu segir hv. þingmaður, og ber að virða það við hann, að það gerist hugsanlega. En það liggur hins vegar alveg skýrt fyrir að Félagsdómur frá árinu 1998 hefur um þetta fjallað og komist að þeirri niðurstöðu að þetta brjóti ekki í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Þau rök sem hv. þingmaður hefur flutt hér gegn þessum dómi finnast mér ekki standast. Hv. þingmaður segir að vegna þess að Hæstiréttur hafi ekki um þetta fjallað hafi dómur Félagsdóms ekkert gildi. Þetta finnst mér ákaflega mikil hundalógík.

Hægt er að taka undir með hv. þingmanni að þau gjöld sem hér um ræðir hafa ákveðin einkenni skatts. Samt sem áður get ég ekki fallist á þá skilgreiningu að öllu leyti því að ljóst er að það kemur skilgreint endurgjald fyrir þetta gjald, það er t.d. samið um lágmarkslaun. Hver ella ætti að gera það?