131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[11:53]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að samin hafi verið lög á Alþingi sem brjóta stjórnarskrána og Hæstiréttur hefur tekið á þeim nokkrum, það er öryrkjadómurinn, það eru kvótadómar. Hv. þingmaður heldur því einnig fram að fjölmiðlalögin sem samþykkt voru síðasta sumar brjóti stjórnarskrána líka en það er náttúrlega ekki sannað mál þar sem Hæstiréttur hefur ekkert um þau fjallað. Þannig er að stjórnarskráin og skoðun á henni er í ákveðinni breytingu, gerðar hafa verið stjórnarskrárbreytingar og menn hafa að sjálfsögðu hlítt þeim dómum þar sem Hæstiréttur hefur kveðið úr um.

Varðandi dóm Félagsdóms er fjallað um það í greinargerðinni og þar nefnt einmitt að dómarar verða að fara að lögum og þeir skulu fara að laganna hljóðan, þeir geta ekki annað. Í undirrétti hlýtur dómari að fara að lögum jafnvel þó að lögin brjóti stjórnarskrána. Það er Hæstaréttar, þegar hann kemur fram sem stjórnlagadómstóll og ákveður hvort lög standist stjórnarskrána eða ekki, það er enginn annar dómari sem getur kveðið á um það. Dómari í héraðsdómi hlýtur því að fara að lögum sem sett eru á Alþingi. Síðan fer það til Hæstaréttar og það er sá aðili sem getur kveðið á um það hvort þetta standist stjórnarskrána eða ekki.

Þessi umræddi dómur sem þarna féll fór að sjálfsögðu að lögunum, sem gert er ráð fyrir að þetta frumvarp breyti, þannig að hann fór að lögunum. Hann dæmdi samkvæmt lögunum og gat ekki annað. Ef hægt hefði verið að áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar og ef það hefði verið gert og Hæstiréttur tekið á málinu þá gætum við sagt um það hvort þetta ákvæði stæðist stjórnarskrána eða ekki. En við getum ekki notað dóma héraðsdóms af því að í stjórnarskránni stendur að þeir skuli fara að lögum.