131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:30]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki meining mín að setja umræðuna í neitt neikvæðan farveg. Mér finnst hins vegar ekki hægt að vera með mjög jákvæð orð um þann hluta málsins sem ég var að tala um, það að ekki hefur sést að menn væru að vinna að þessum málum með fullnægjandi hætti hvað varðar það tímabil sem líður örugglega þangað til vetnisvæðing getur orðið að veruleika. Það er svo margt sem við getum gert til að spara orku og til að nýta betur orkuna sem við flytjum inn. Þar er fiskiskipaflotinn náttúrlega stór liður en líka bílarnir sem hv. þingmaður nefndi áðan. Bílaflotinn okkar gæti verið allt öðruvísi en hann er núna. Hann gæti eytt miklu minni orku en hann gerir og mengað miklu minna en hann gerir. Þetta er eitthvað sem við verðum að horfast í augu við að er rétt.

Ég tel samt að allt hljóti þetta að horfa til betri vegar. Ég vona sannarlega að hluti af því sem hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi áðan sem stefnumörkun sé stefnumörkun um það hvað menn ætla að gera þangað til vetnið getur orðið sú framtíð sem við viljum fá. Það er mjög mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að nýta sem allra best orkuna og minnka mengunina sem allra mest. Það verður ekki allt gert með því að horfa eingöngu á vetnisvæðinguna.