131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:20]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fer aftur algjörlega út fyrir efnið. Við erum ekki að ræða um hvort samkeppnislög séu nauðsynleg eða ekki, það er ekki til umræðu. Það er bara til umræðu hvort Samkeppnisstofnun sé í fjársvelti og hvort hægt sé að leita einhverra annarra leiða til að auka málshraða stofnunarinnar.

Ég benti á eina leið vegna þess að það fer dálítið í taugarnar á mér að alltaf þegar menn, sérstaklega vinstri menn, telja að málum sé illa fyrir komið í ríkisrekstrinum telja þeir að það þurfi meiri peninga. Ég benti góðfúslega á aðra leið sem leyst getur þann vanda sem mér sýnist að hv. flutningsmenn telji að Samkeppnisstofnun eigi við að glíma.

Úr því að mál tryggingafélaganna bar á góma þekki ég það ágætlega og er reyndar með ákvörðun nr. 17 frá árinu 2004 í höndunum, sem er lokaniðurstaða í því máli. Það var hvorki fjárskortur né tímahrak sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem þar kemur fram. Niðurstaðan var einfaldlega sú að tryggingafélögunum var borið að sök að hafa brotið tiltekin ákvæði samkeppnislaga og lögð voru til viðurlög og sektir vegna þeirra meintu brota. Þegar öll kurl voru komin til grafar lá málið einfaldlega þannig og ákvörðun Samkeppnisstofnunar liggur fyrir, að það var ekki grundvöllur til að sekta tryggingafélögin fyrir hinar meintu sakir. Það var niðurstaðan. Það var ekki grundvöllur fyrir því að sekta tryggingafélögin vegna hins meinta ólögmæta samráðs á vátryggingamarkaði. Það er kjarni málsins og ég skora á hv. þingmann að lesa ákvörðunina um rannsóknina.