132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[12:00]
Hlusta

Frsm. meiri hluta félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Valdimar Leó Friðrikssyni. Hann dró það fram að hér í upphafi ríkti mikill fögnuður með frumvarpið og hann ríkir enn. Þetta er mjög mikið framfaramál. Hér er verið að stórbæta réttindi foreldra langveikra barna. (VF: Ekki stórbæta.) Jú, það er verið að stórbæta þau réttindi. Hér er verið að koma inn með nýjar greiðslur sem hafa ekki verið greiddar áður og því ber að fagna. Þetta hefur verið mikið hagsmunamál í langan tíma hjá þessum foreldrum og þessum hópi. Hins vegar er alltaf spurning: Hvað á að greiða mikið og í hve langan tíma? Og hver er hugmyndafræðin á bak við svona greiðslur?

Ýmsir hagsmunaaðilar vildu að sjálfsögðu fá bæði hærri greiðslur og meiri afturvirkni og fá greiðslurnar í lengri tíma. Það er ósköp eðlilegt að hagsmunaaðilar vilji fá hærri upphæðir. Og svo sem ekkert við það að athuga. En einhvers staðar verður að skera úr. Og niðurstaðan í þessu frumvarpi og í vinnslu málsins er að halda sig við frumvarpið eins og það lítur út varðandi greiðslurnar. Það er að segja 93.000 kr. á mánuði fyrir hópinn sem greinist frá 1. janúar 2006 og þegar þetta hefur tekið gildi síðar á árinu þá komi rétturinn inn í þrepum. Þetta kostar ríkissjóð ákveðin útgjöld og það er alltaf umdeilanlegt hvort hann er mikill eða lítill. En hér er um ný réttindi að ræða sem við erum mjög stolt af að veita. Síðan mun væntanlega verða skoðað (Forseti hringir.) seinna hvort þurfi að breyta þessum greiðslum að einhverju leyti.