136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé mál sem efnahags- og skattanefnd verði að skoða. Ég er reyndar ekki í henni en Framsóknarflokkurinn er þar með fulltrúa, hv. þm. Birki J. Jónsson. Það er alveg ljóst ef við lítum til löggjafar annarra landa að við erum að feta einhverja leið sem aðrir hafa ekki farið. Þetta er full þröng skilgreining.

Ég vil líka benda á og sem stjórnmálamaður vil ég sérstaklega undirstrika að stjórnir bankanna, forustumenn þeirra hafa meira og minna farið með ósannindi gagnvart stjórnmálamönnum og samfélaginu öllu um stöðu peningamála. Mér skilst líka að allir forstöðumenn greiningardeilda bankanna hafi verið hagfræðingar og þeir sögðu að hér væri allt í himnalagi. Og maður bara trúði því, ég viðurkenni það að maður trúði því þangað til að hingað fóru að berast skýrslur sem vöruðu við ástandinu.

Ég spyr því hvort það sé svo merkilegt að vera hagfræðingur að það þurfi að naglfesta það í lög að það eigi ekki aðs ráða seðlabankastjóra nema að hann hafi meistarapróf í hagfræði. Ég hef miklar efasemdir um það, virðulegur forseti, eftir þá reynslu að hafa verið plötuð upp úr skónum af hagfræðingum.

Ég legg því til að efnahags- og viðskiptanefnd skoði þessa skilgreiningu og mér finnst að menn hljóti að líta til annarra landa. Ég tel að það verði að hafa þessar hæfniskröfur opnari og ég undirstrika að aðalatriðið varðandi viðkomandi aðila sem verður ráðinn eftir auglýsingu er að hann hafi víðtæka reynslu á sviði bankamála og peningamála. Hann getur haft háskólamenntun en ég tel að það sé ekki endilega rétt leið að fara að einskorða þetta við meistarapróf í hagfræði. Ég vona að efnahags- og skattanefnd (Forseti hringir.) skoði þetta ákvæði betur.