136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:51]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að það megi hafa það til marks um að okkur jafnaðarmönnum og félagshyggjumönnum gengur vel í okkar ætlunarverki þegar hv. þm. Björn Bjarnason er jafnpirraður og raun hefur borið vitni bæði í dag og í gær. Það eina sem þarf að leiðrétta í hans máli er að á þeim götum sem hann hefur aldrei komið út á er ekki talað um að rétta mönnum fingurinn heldur talað um að gefa mönnum puttann. Hann hefur verið að gefa puttann í ýmsar áttir bæði í dag og í gær án þess að koma fram í hvorugt skiptið með aðra stefnu en þá sem til umræðu er, hvorki í málinu um greiðsluaðlögun í gær né í málinu í dag um Seðlabankann og yfirstjórn hans. Hann lætur sér nægja að fjasa um ýmis formsatriði. Hann lætur sér nægja að ræða um handbók sína og kennslubók í því hvernig eigi að búa til lagafrumvörp. En hann segir okkur ekki hver sé stefna hans eða Sjálfstæðisflokksins í málefnum Seðlabanka Íslands, um yfirstjórn Seðlabanka Íslands.

Ég held að það sé rétt hjá hæstv. viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússyni sem flutti góða ræðu, jómfrúrræðu sína á þingi, að umfram allt snúist starfsemi Seðlabanka Íslands um traust. Vegna óska um að ræður fari að styttast ætla ég að hætta við að draga lærdóma af sögu Ólafs Björnssonar prófessors um Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands 1904–1980. Ég vona að mér gefist tækifæri til þess síðar en í þeirri sögu rekur Ólafur mjög stuttlega hvernig fór þegar menn 1929–1930 fóru að þeim ráðum sem Davíð Oddsson gaf í Kastljósþætti um það að borga ekki skuldir og gefa útlendingum puttann. Það endaði þannig að það var Íslandsbanki sem þá var settur á hausinn og stóð í stappi um hvort ríkisstjórnin ætti að ábyrgjast þau erlendu lán sem þar voru inni, þar á meðal hið fræga enska lán sem ríkisstjórnin hafði sjálf tekið, og hvort það ætti að greiða hlutafé sem erlendir menn höfðu í þessum banka. Þetta stríð varð til þess að veikja svo álit erlendra fjármálamanna og skoðenda á Íslandi og á íslenskum fjármálum að kreppan á Íslandi stóð mun lengur en nokkurs staðar annars staðar og lauk í raun og veru ekki fyrr en síðari heimsstyrjöldin skall á eins og menn muna, í maí 1940, þó að þá hefðu grannlöndin með ýmsum hætti haft sig upp úr verstu erfiðleikunum. Þessu ætla ég sem sagt að sleppa en vísa til þessarar ágætu bókar eftir Ólaf Björnsson prófessor sem kann að vera að sjálfstæðismenn sumir þekki enn þá. Hann er kannski einn af fremstu mönnum úr þeirra hópi hér á þinginu og væri betur að ýmislegt í hans málflutningi og kenningum lifði enn í Sjálfstæðisflokknum.

Ég get þó ekki stillt mig um að segja aðra sögu þó að það sé styttra síðan hún gerðist. Hún var þannig að friður og traust um Landsbanka Íslands þótti hafa rofnað mjög haustið 1998 þegar fréttir bárust af einkennilegum risnukostnaði í bankanum. Ég læt vera að dæma um það, ég hef ekki til þess neinar forsendur hvort þær voru á rökum reistar eða ekki eða eðlilegar eða ekki en um var að ræða tíðar og kostnaðarsamar laxveiðiferðir meðal annars. Menn spurðust fyrir um þetta mál ítrekað á þinginu, fremst þeirra þingmanna var Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra. Þetta mál endaði þannig að bankastjórar Landsbankans þáverandi, Björgvin Vilmundarson, Halldór Guðbjarnason og Sverrir Hermannsson, voru knúðir til afsagnar og sögðu af sér embættum. Um það sagði Davíð Oddsson, núverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans þetta, með leyfi forseta:

„Þinginu og þjóðinni er núna mikilvægast að friður og traust [ég endurtek: Friður og traust] fái að ríkja um Landsbankann jafnt inn á við sem út á við. Landsbankinn er ein mikilvægasta fjármálastofnun landsins og orðspor okkar út á við og inn á við krefst þess að skapað sé traust og friður [ég endurtek: Traust og friður] um bankann.“

Davíð sagði enn fremur eftir afsagnirnar 15. september 1998 úr þessum stóli þetta, með leyfi forseta:

„Ekki er deilt um það í þinginu að þessar afsagnir voru eins og mál voru komin algerlega nauðsynleg forsenda þess að skapa mætti traust og frið um bankann á nýjan leik.“