141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að taka upp þetta mikilsverða mál. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru þau mikilvægustu í íslensku hagkerfi og það er augljóst og mál allra þeirra sem vinna innan þess geira að markmið ríkisstjórnarinnar um að ýta undir vöxt, nýsköpun og að fjölga störfum hjá þessum fyrirtækjum hefur mistekist. Það er líka umhugsunarefni hvort ekki vanti öflugan hagsmunagæsluaðila á þessu sviði — Samtök atvinnulífsins eru kannski ekki best til þess fallin.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það hafa komið verkefni frá ríkisstjórninni sem eru jákvæð hvað þetta varðar. Til að mynda er verkefnið Allir vinna mjög jákvætt verkefni, en í hverju fólst það? Það fólst einmitt í að lækka skatta. Þar kemur hvatinn fram og þess vegna er verkefnið jákvætt og hefur haft góða þýðingu fyrir mjög marga iðnaðarmenn.

Ég ætla að nefna hérna tvö atriði þar sem ríkisvaldið hefur haft mjög neikvæð áhrif á akkúrat þessi fyrirtæki. Hækkun á almannatryggingagjaldinu kemur sérstaklega illa niður á litlum fyrirtækjum þar sem launakostnaður er mjög hár. Það er því spurning hvort ríkisvaldið hafi hreinlega ýtt undir vöxt stóru fyrirtækjanna með þeirri aðgerð og horft fram hjá því að hún kæmi illa niður á fyrirtækjum þar sem launakostnaðurinn er 60–80% en ekki á stóriðjufyrirtækjunum þar sem launakostnaðurinn er á bilinu 10–20%.

Það er rétt að í McKinsey-skýrslunni kom fram að arðsemi og framleiðni þessara litlu fyrirtækja er ekki nægilega öflug. Þess vegna ætti að ýta undir hana. Það verkefni snertir núverandi ástand og vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í það. Verkefni snýst um að fá atvinnulausa í vinnu hjá fyrirtækjum. Sett hefur verið sú regla að ekki megi fara yfir eitthvert 25%-hlutfall, það megi ekki vera stærra. Það þýðir að minnstu fyrirtækin, sem gætu bætt við sig manni, hefðu kannski verið með hálft starf, (Forseti hringir.) geta ekki ráðið þetta fólk til starfa vegna reglna sem ríkisstjórnin hefur sett. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að breyta því. Þá gætu fjölmörg þessara fyrirtækja (Forseti hringir.) bætt við sig starfsfólki af atvinnuleysisskrá.