141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér kom til tals áðan málfar ýmissa stétta. Nú er það þannig að þegar pípulagningamaður talar skil ég ekki nema nokkuð af því og ég geri ráð fyrir að þegar ég hlusta á lögfræðinga eigi svipað við. Ég geri einnig ráð fyrir því að lögfræðingunum sjálfum finnist þeir tala íslensku.

Ég vildi spyrja hv. þingmann, þar sem nú hafa margir sérfræðingar komið að þessu, lögfræðisérfræðingar: Finnst honum hafa verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra sérfræðinga, þessara menntuðu manna, eða er menntunin í rauninni lögð til hliðar, horft fram hjá henni og hún jafnvel til óþurftar þegar verið er að fjalla um mál eins og stjórnarskrá, sem mun fara í dómsmál fyrir Hæstarétti, fyrir lögfræðikerfinu eða dómskerfinu þar sem verið er að tala lögfræðingamál og þar sem eru sérfræðingar?

Ég tek undir með hv. þingmanni um að sérhver breyting á stjórnarskránni, þó að hún sé lítilvæg, jafnvel bara kommubreyting, breytir öllum forsendum hæstaréttardóma.