141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að hér eru álitamál á ferðinni sem þarf að skoða betur. Þingmaðurinn nefndi að þetta væri eitthvað sem kæmi til álita að fara aðeins betur yfir. Það er auðvitað þannig, eins og í byggðasamlögum sem við þekkjum báðir af reynslu á höfuðborgarsvæðinu, að verið er að færa ákveðin verkefni til byggðasamlaga þar sem sitja bara fulltrúar meiri hlutanna á hverjum stað og fulltrúar minni hluta í sveitarstjórnum hafa þar af leiðandi ekki aðkomu að umræðum og stefnumörkun og ákvörðunum sem eru teknar á þeim vettvangi.

Ég tel að þetta kalli á ákveðinn lýðræðishalla og mér finnst það vandmeðfarið. Mér finnst sérstaklega vandmeðfarið að binda það í stjórnarskrá með þeim hætti sem hér er gert, að heimilt sé að færa valdið með því móti. Ég tel að það þurfi að gerast með mjög miklum takmörkunum og tryggja þurfi með einhverju móti að það sé alltaf hægt að kalla málin til viðkomandi sveitarfélaga eða þá að búa til einhvern strúktúr þar sem kosið er beint til þeirra stofnana, samlaga eða samtaka sem fara með ákvörðunarvald í málefnum íbúanna.