141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:26]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessu, ég get tekið undir þær áhyggjur sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi um lýðræðishallann. Við þekkjum það sem höfum starfað í sveitarfélögunum, ég tala nú ekki um á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru stór og mikil byggðasamlög sem stjórnunarlega lokast inni í meirihlutavaldi og aðkoman er takmörkuð fyrir hina kjörnu fulltrúa inn í það starf.

Ég skildi líka frá hinni hliðinni af hálfu umboðsmanns að hann hefði áhyggjur af því að verið væri að útvista verkefnum til jafnvel einkaaðila og utanaðkomandi aðila, einhverju af þjónustuverkefnum sem ætti að vera á opinberri hendi. Vera má að þetta orðalag sé það víðtækt að hægt sé að lesa ýmislegt út úr því og túlka það á ýmsa vegu. Við þurfum þá að fara betur yfir það og tryggja að slíkt sé ekki uppi. Ég hef þau orð frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að þar hafi menn ekki beinar áhyggjur af þessu en geri sér grein fyrir að þetta eru þættir sem þarf að horfa til.