143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla.

[14:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Nú streyma inn samþykktir sveitarstjórna vítt og breitt um land sem skora á ríkisstjórnina að leggja til hliðar þá tillögu sem hún hefur lagt fram og efna fyrirheitið um þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfir 50 þúsund Íslendingar hafa skrifað undir áskorun þess efnis og í könnunum er að mælast, alltaf og þétt, að í kringum 80% þjóðarinnar styðji þá kröfu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefði að mínu viti getað skapað fordæmalausa sátt um framhald mála í samskiptum Íslands við Evrópusambandið ef menn hefðu viljað standa við það fyrirheit sem gefið var. Við sem lögðum til að farið yrði í aðildarviðræður og samningur síðan lagður fyrir þjóðina, eins og hæstv. fjármálaráðherra lagði sjálfur til 2008, hefðum getað sætt okkur við þá leið og hægt hefði verið að byggja sterkan lýðræðislegan grundvöll undir framhaldið með þeim hætti. En ríkisstjórnin hefur ekki viljað efna þá tillögu.

Við lok umræðu í síðustu viku henti svo hæstv. fjármálaráðherra fram þeirri nýstárlegu hugmynd að leggja þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram, og er óframkvæmanleg að efni sínu, í þjóðaratkvæði. Það er fráleitur valkostur. Það er valið á milli þess að halda ekki áfram og hætta við. Það er ekki valið sem þjóðinni var afhent og var lofað að hún fengi, valið til að útkljá spurninguna. Við sáum svipaðan áhuga á nýsköpunar- og þróunarvinnu í spurningum í þjóðaratkvæðagreiðslum á Krímskaga um liðna helgi en þar voru tvær ómögulegar spurningar lagðar fyrir íbúana.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki einfaldast að standa við kosningaloforðin, leyfa þjóðinni að útkljá spurninguna? Það verður ekki gert nema með því að leggja opna spurningu fyrir þjóðina: Viljið þið halda áfram eða ekki?