144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það hefur færst í vöxt undanfarin ár að fyrirtæki og stofnanir séu færð armslengd frá pólitíkinni og mynduð annaðhvort hlutafélög eða svokölluð ohf., opinber hlutafélög, einmitt til þess að minnka áhrif stjórnmálanna og stjórnmálamanna á rekstur þeirra. Eflaust hefur þetta verið góðu heilli gert á sínum tíma, en ég held við þurfum að spyrja okkur um árangur af þessu og hvernig þetta hefur reynst vegna þess að nýlegar fréttir sem við höfum haft af sölu Landsbankans á stórum eignarhlutum án þess að útboð fari fram, nýlegar fréttir sem við höfum af launahækkunum stjórnenda Landsbankans, ekki bara núna heldur síðastliðin nokkur ár, benda til þess að þarna sé eitthvað sem þurfi að athuga betur. Ég get líka nefnt nýlegar fréttir af launakjörum stjórnenda Íslandspósts sem virðast vera mjög rífleg þrátt fyrir bágan rekstur þess fyrirtækis.

Síðan verð ég að viðurkenna, herra forseti, að það tók nú eiginlega steininn úr þegar ég las um daginn að Isavia sem er nú vel rekið fyrirtæki, hefði kostað til 16 millj. kr. í tónlistaratriði á árshátíð félagsins. Nú er það fjarri mér að sjá eftir peningum sem fara til íslenskra tónlistarmanna, en ég veit ekki hvað réttlætir það að fyrirtæki í almannaeigu fari svona með fé sem því er treyst fyrir. Ég efast satt að segja um að þetta sé í samræmi við það sem segir um rekstur þessara félaga þar sem talað er um að beita eigi vönduðum stjórnarháttum. Ég held að þau dæmi sem ég rakti hér að framan hljóti að hvetja okkur til þess, herra forseti, að láta athuga rekstur þessara félaga sérstaklega.