144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ber fyllstu virðingu fyrir hæstv. ráðherra. Ég verð að segja alveg eins og er að það fer svolítill hrollur um mig þegar hann talar svona. Ég tel að bónuskerfið hafi verið partur af því sem næstum því fór með okkur til fjandans í hruninu.

Ég dreg það heldur ekki í efa, þegar hæstv. ráðherra segir að þetta sé allt saman miðað við regluverkið sem kemur utan frá. Það getur vel verið en ég gæti nefnt fleiri dæmi vegna þess að ég var í hruninu, ég var í ríkisstjórn þá þannig að ég tek þessi mál alvarlega og ég hef lesið þetta frumvarp.

Ég er búinn að sitja hér í 25 ár. Ég er ekki hagfræðingur og er með engar gráður í því en í ýmsu öðru. Það er dálítið erfitt að skilja þetta frumvarp. Þar eru notuð orð, hæstv. ráðherra notaði til dæmis orð sem eru ekkert skýrð í orðskýringum, koma hvergi fram skýringar á, eins og „sveiflujöfnunarauki,“ „áhættumyndandi þættir“. Af hverju er þetta ekki skýrt frekar í frumvarpinu? Ég gæti til dæmis, fyrir utan þetta með áhættumatsnefndina, sem ég tel að sé freistnivandi fyrir hendi, rætt greinina sem fjallar um það hvernig á að takmarka áhættuaukningu lána til starfsmanna, stjórnarmanna eða eigenda virkra eignarhluta. Mér finnst það orðalag vera ansi laust. Það eru vítin sem á að varast vegna þess að þau brenndu okkur á sínum tíma.