144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að gefa hæstv. forseta skýlaust loforð af minni hálfu að ég ætla ekki að leggja það í vana minn að koma hingað í andsvör við mína eigin flokksmenn. Hins vegar var hv. þm. Árni Páll Árnason með merkilegar vangaveltur sem vörðuðu hin breytilegu starfskjör og snertu einmitt kjarna spurningar minnar til hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag. Skil ég hv. þingmann rétt þegar ég segi að hann sé í reynd að leggja til a) að það verði gert heimilt að beita hugsanlega hærri og rífari breytilegum starfskjörum, lesist: bónusum, innan smærri fjármálafyrirtækja, sem hægt er að skilgreina þannig að hafi ekki kerfislega áhættu, eins og t.d. vátryggingamiðlun, svo ég taki það sem dæmi, og b) er hann að leggja til að fyrir utan það að starfsmönnum sem eru í eftirlitsstrúktúr fjármálafyrirtækja verði meinað að fá breytileg starfskjör eða bónusa? Er hann þá líka sem sagt að leggja til að auk þeirra verði undanþegnir lykilstjórnendur, hugsanlega stjórnarmenn líka? Það er alla vega einnar messu virði að velta því fyrir sér til að koma í veg fyrir það sem átti stóran þátt í falli bankanna, sem var þessi kúltúr, áhættusækni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd: Er það þetta sem hann á við?