144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérlega fyrir ræðuna og lýsi ánægju minni með þau varnaðarorð sem hann hafði hér um eiginfjárhlutfallið. Ég tel hann færa sterk rök fyrir því að gera eigi meiri kröfu en gerð er í frumvarpinu. Ég fagna því þótt heldur mikið beri á því að menn vilji bara spóla aftur til 2006 og láta eins og hér hafi ekkert komið fyrir. Ég held að menn þurfi að draga sínar ályktanir af því sem hér gerðist og setja niður varnir gagnvart því að það hendi aftur.

Tengt þessu, af því að þingmaðurinn talaði um að hlutafé væri ekki dýrt þá hefur hagnaður bankanna verið nokkuð í umræðunni og hefur ýmsum þótt hann vera óhæfilegur, ég held að hann sé samanlagt 80 milljarðar fyrir viðskiptabankana þrjá. Dregið hefur verið fram að þar sé um að ræða 14,6% arðsemi á eigið fé í bönkunum og að krafa Bankasýslunnar um langtímaarðsemi eiginfjárhluta ríkisins eigi að vera 14,7%, þess vegna sé hagnaður bankanna í samræmi við arðsemiskröfuna sem Bankasýslan sé að gera og raunar ívið lægri.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann það vera eðlilega kröfu hjá Bankasýslunni? Verða stjórnvöld þá ekki að beita sér fyrir því að lækka arðsemiskröfu Bankasýslunnar ef minnka á hagnaðinn hjá viðskiptabönkunum og lækka álögurnar á viðskiptavinina? Og af því að hv. þingmaður þekkir fjármögnunarkostnað á markaði, er 14,7% krafa ekki býsna dýr kostur ef hlutafé á að vera með þeim verðmiða?