144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni og reyndar líka í andsvörum fyrr í umræðunni þá óvenjulegu stöðu sem vissulega er uppi varðandi eignarhaldið á tveimur af þremur stóru bönkunum, þ.e. Arion banka og Íslandsbanka. Það er rétt að því sé til haga haldið í þeirri umræðu að gengið var eins rækilega frá því á sínum tíma og hægt var með eldveggjum milli slitabúsins og sjálfstæðs eignarhaldsfélags sem er undir óháðri stjórn. Þetta er valdað af bæði samþykktum bankans og samningum í millum gömlu og nýju bankanna undir eftirliti FME að á meðan þetta óvenjulega ástand varði væri eignarhaldið bundið inni í sjálfstæðu félagi og ekki er hægt að hrófla við því þaðan nema að um sölu sé að ræða til hæfs framtíðareiganda, „fit and proper“ eiganda eins og menn sletta á því máli.

Vissulega er þetta ástand búið að vara lengur en maður reiknaði með og auðvitað er það ekki til frambúðar, ég er sammála hv. þingmanni um það. Við getum velt fyrir okkur hvers vegna menn skorti kjark til að kaupa annan hvorn eða báða þessa banka, t.d. árið 2011, þegar það er nokkuð ljóst að þeir hefðu fengist á tæplega nafnverði eigin fjárins í þeim eins og það stóð þá. Af hverju höfðu ekki íslenskir lífeyrissjóðir eða einhverjir aðrir slíkir þann kjark og þá trú á íslensku hagkerfi að þeir þyrðu? Erlendir aðilar hnusuðu reyndar af bönkunum og þeir hljóta líka að velta fyrir sér hvort þetta hefðu ekki verið reyfarakaup. En hvað um það.

Varðandi hitt sem hv. þingmaður nefndi um allsherjartrygginguna á öllum innstæðum er það mikið umhugsunarefni að svo seint sem nú, þegar komið er talsvert inn á árið 2015, er hún enn í gildi. Það hefur ekkert gerst það ég best veit. Ég spyr hv. þingmann: Rekur hann minni til þess að hafa séð þó ekki væru nema einhver skref til dæmis af því tagi sem voru í undirbúningi 2011 og 2012 að byrja að vinda ofan af (Forseti hringir.) allsherjartryggingunni með því að gefa það út að hér eftir væru til dæmis innstæður annarra en einstaklinga ekki tryggðar, þ.e. (Forseti hringir.) stofnana eða fjárfesta, og sveitarfélög og stórir aðilar væru eftir það eingöngu með þá tryggingu sem innstæðutryggingakerfið (Forseti hringir.) býður upp á?