144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við hv. þingmaður séum alveg sammála. Í fyrsta lagi fagna ég því að hann skuli taka undir mikilvægi þess að við eigum að minnsta kosti einn banka sem kjölfestu í hagkerfi okkar. Varðandi eignarhaldið á bönkunum spyr ég sjálfan mig: Hvers vegna vilja menn eiga banka? Það er til að fá af honum arð og ef eignarhaldið er erlendis fer arðurinn út, það segir sig sjálft. Ég hef aldrei gefið mikið fyrir það að ekki skipti máli hvers lenskur kapítalisminn er. Ég held að það skipti máli að hann sé í nærsamfélaginu og arðurinn af atvinnustarfsemi gangi inn í samfélagið eftir því sem kostur er. Það er ekki þar með sagt að ég telji ekki ágætt í ýmsum greinum að fá hingað inn þekkingu og þess vegna einhverja fjármuni, en stórfellt streymi gróða í formi gjaldeyris úr landi getur varla verið eftirsóknarvert.