144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[19:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ósanngjarnar í garð stofnana okkar? Að því spyr hv. þingmaður upphátt. Við búum náttúrlega við sérstakar aðstæður sem eru þær að bankakerfið á Íslandi er skermað af frá umheiminum, þannig að ég get ekki séð að það mundi með einhverjum hætti rýra samkeppnishæfni þeirra.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að þetta er náttúrlega miklu meira en daður eða vængstig hjá hæstv. fjármálaráðherra við kaupaukakerfið. Hann var nánast að biðja Alþingi um að breyta sínu eigin frumvarpi í þá veru að hluthafafundur mætti auka kaupaukann hjá stjórnarmönnum og yfirmönnum, lykilstjórnendum, upp í 100% og sagði: Annars staðar á Norðurlöndum er þetta leyfilegt allt upp í 200%. Málið er auðvitað að við lentum í miklu verri málum hér en önnur norræn ríki í sinni bankakreppu 9. áratugarins. Það er niðurstaða mín, sem skerptist mjög við umræðuna í dag, að þessi samtvinnaða blanda, eins og hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni í dag, af hinu gasalega kaupaukakerfi, sem svoleiðis sprakk úr öllum viðjum 2007 eða síðasta heila árið fyrir kreppu, ásamt gróðasókninni, sem felst í því að hafa sem þyngst eigið fé til að hafa sem hæstan hlutfallslegan hagnað, var það sem gerði það að verkum að kerfi okkar lagðist bókstaflega á hliðina. Við verðum að læra af þeirri reynslu. Við þurfum að læra vel af henni. Ég er ósammála hv. þingmanni í einu af því sem hann hefur sagt í öllum ræðum sínum í dag. Hv. þingmaður telur að það komi fram viðurkenning á því í greinargerðinni af hálfu Evrópusambandsins að kerfið virki ekki en þeir séu samt að lappa upp á það. En þeir eru samt að breyta því, skilst mér af þessu frumvarpi, miðað við að þeir ætla sér að breyta reglum um eigið fé. Það skiptir meginmáli. Þeir eru sem sé að fara í sömu vitleysu aftur með kaupaukakerfið.