145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

aukinn stuðningur vegna tæknifrjóvgana.

20. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana. Auk mín eru flutningsmenn tillögunnar hv. þingmenn Kristján L. Möller, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Tillagan felst í því að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir árslok 2016. Ég vek athygli á því að í þingskjalinu stendur ártalið 2015, en eðli málsins samkvæmt verður það leiðrétt.

Við endurskoðunina verði gætt að eftirtöldum atriðum:

1. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar,

2. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir,

3. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái að fullu til meðferða þar sem engin frjóvgun verður og uppsetning á fósturvísum fer því ekki fram, en slík tilvik verði ekki talin með öðrum tæknifrjóvgunarmeðferðum sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nær til,

4. að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga taki til ferðakostnaðar vegna tæknifrjóvgunarmeðferða jafnvel þótt greiðsluþátttaka nái ekki til þeirra meðferða,

5. að kynfrumur, þ.e. egg- og sáðfrumur, frá tilteknum gjafa fari aðeins til eins pars eða einstaklings.

Þingsályktunartillaga þessi var fyrst lögð fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, hjúkrunarráði Sjúkrahússins á Akureyri, landlæknisembættinu og Læknafélagi Íslands í mars 2015. Umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð tillögunnar og engum mótmælum við henni var hreyft.

Ófrjósemi er sjúkdómur sem er vaxandi vandamál hér á landi. Ætla má að eitt af hverjum sex pörum eigi við einhvers konar ófrjósemi að stríða.

Greiðsluþátttaka ríkisins vegna glasafrjóvgunarmeðferða fer nú eftir ákvæðum reglugerðar frá 2011. Samkvæmt henni tekur hún til glasafrjóvgunar og smásjárfrjóvgunar. Reglugerðinni var breytt með annarri reglugerð sama ár þannig að nú nær greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands aðeins til annarrar til fjórðu meðferðar, hvort sem um er að ræða par sem á ekki barn saman fyrir eða einhleypa konu sem á ekki barn. Eftir breytinguna taka sjúkratryggingar ekki þátt í kostnaði vegna glasafrjóvgunarmeðferða hjá pörum sem fyrir eiga barn saman. Núgildandi reglur kveða á um að endurgreiðsluhlutfall sjúkratrygginga séu 65% af viðmiðunarverði gjaldskrár sjúkratrygginga. Gildistími reglugerðarinnar er tímabundinn, samanber 8. gr. hennar, og hefur gildistími hennar verið framlengdur um eitt ár í senn á hverju ári síðan hún var sett. Því má ljóst vera að núverandi fyrirkomulag sé ekki ætlað til framtíðar. Að mati flutningsmanna tillögunnar eru það sterk rök fyrir því að ráðherra endurskoði núverandi fyrirkomulag um greiðsluþátttöku ríkisins.

Á grundvelli reglugerðarinnar hafa sjúkratryggingar tekið þátt í kostnaði vegna glasafrjóvgunarmeðferða. Samkvæmt gjaldskrá er heildarkostnaðar við glasafrjóvgun rúmar 314 þús. kr. Greiðsluhlutfall sjúkratrygginga er sem fyrr segir 65% samkvæmt núgildandi reglugerð. Sjúklingar fá því endurgreiddar rúmlega 204 þús. kr. vegna annarrar til fjórðu glasafrjóvgunarmeðferðar eins og staðan er nú. Raunkostnaður við glasafrjóvgun er umtalsvert hærri en gert er ráð fyrir í núgildandi gjaldskrá. Aðeins einn aðili framkvæmir frjósemisaðgerðir á Íslandi, en það er fyrirtækið ART Medica. Glasafrjóvgunarmeðferð hjá ART Medica kostaði 376.055 kr. fyrir 1. september 2015 en kostar nú 413.660 kr. eftir gjaldskrárhækkun. Það þýðir að eftir 1. september 2015 er kostnaður sem sjúklingur þarf sjálfur að bera við glasafrjóvgun tæpar 414 þús. kr. vegna fyrstu meðferðar, rúmar 209 þús. kr. vegna annarrar til fjórðu meðferðar og tæpar 414 þús. kr. við fimmtu meðferð og upp úr. Þetta eru mjög miklir peningar.

Þá ber að geta þess að smásjárfrjóvganir eru dýrari en glasafrjóvgunarmeðferðir. Innifalið í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga er kostnaður vegna nauðsynlegra rannsókna, heimsókna til tæknifrjóvgunarsérfræðinga og lyfja annarra en örvunarlyfja eggjastokka, en um greiðslu þeirra fer samkvæmt reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði. Samkvæmt þessu ættu öll önnur lyf en örvunarlyf, þ.e. bælingarlyf, sýklalyf o.fl., að vera innifalin í þeirri upphæð sem sjúkratryggingar greiða vegna meðferða, en svo er ekki.

Að þessu sögðu er áhugavert að skoða fyrirkomulagið í þeim nágrannalöndum sem við berum okkur helst saman við hvað heilbrigðisþjónustu varðar. Ísland er þar nokkur eftirbátur. Eins og áður segir tekur greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hér ekki til fyrstu glasa- og smásjárfrjóvgunarmeðferðar, en í Danmörku og Svíþjóð nær greiðsluþátttaka ríkisins yfirleitt til fyrstu til þriðju meðferðar og í Þýskalandi er ekki gerður greinarmunur á meðferðum. Allar meðferðir þar eru niðurgreiddar af ríkinu hafi pör náð 25 ára aldri. Í Noregi eru þrjár meðferðir greiddar að fullu, en lyf upp að 15 þús. norskum kr., og ef einstaklingur á frysta fósturvísa borgar hann ekki aukalega fyrir uppsetningu þeirra. Hið sama á við um Finnland, þrjár meðferðir eru þar að fullu greiddar en 60% af meðferðum á einkastofum.

Ljóst má vera að þar sem fyrsta meðferð er ekki niðurgreidd af ríkinu hér á landi getur verið þungur fjárhagslegur baggi fyrir pör og einstaklinga að leggja í það ferli sem felst í glasafrjóvgunarmeðferð og má því ætla að færri leiti eftir slíkri meðferð en ef greiðsluþátttaka sjúkratrygginga næði einnig til fyrstu meðferðar. Fólk þarf að leggja út talsverða fjármuni til að hefja meðferðina og má í raun segja að þarna sé aðgangshindrun á grundvelli fjárhagsstöðu þar sem þeir sem hafa minna á milli handanna eru síður líklegir til að fara í glasa- eða smásjárfrjóvgunarmeðferð þrátt fyrir vilja til að eignast barn og getu til að gefa því gott heimili og uppeldi.

Ferðakostnaður vegna tæknifrjóvgunarmeðferða getur einnig verið töluverður og fer að mestu leyti eftir því hvar á landinu fólk býr. Reglurnar sem eru nú í gildi um þátttöku sjúkratrygginga í ferðakostnaði vegna meðferða eiga aðeins við þegar um niðurgreiddar meðferðir er að ræða. Þannig tekur niðurgreiðslan hvorki til fyrstu né fimmtu meðferðar o.s.frv. Tæknifrjóvgunarmeðferðir og uppsetningar á frystum fósturvísum eru einnig dæmi um meðferðir sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nær ekki til og þar af leiðandi þurfa einstaklingar að greiða allan kostnað við þær úr eigin vasa, bæði meðferðirnar og ferðakostnaðinn. Ljóst er því að það er dýrara fyrir fólk á landsbyggðinni að fara í tæknifrjóvgunarmeðferðir en það fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Meðferðir taka nokkrar vikur og á þeim tíma getur sjúklingur þurft að fara nokkuð oft til læknis á höfuðborgarsvæðinu og er sá kostnaður fljótur að safnast upp. Ekki er eðlilegt að fólk sem annars er í sömu stöðu þurfi að greiða misháar fjárhæðir vegna meðferða eftir því hvar það býr á landinu og því mæla jafnréttissjónarmið með að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái einnig til nauðsynlegs ferðakostnaðar.

Eins og áður sagði er á Íslandi starfandi eitt fyrirtæki sem býður upp á frjósemismeðferðir, ART Medica. Mikilvægt er að slík starfsemi sé hér á landi en þess má geta að frjósemismeðferðum hefur fækkað um 10% síðustu missiri sem má rekja til breytinga á greiðsluþátttöku einstaklinga, þ.e. þessi fækkun skýrist að mestu af því að þeir sem þurfa að koma í fyrstu meðferð eiga ekki kost á að hefja ferlið þar sem kostnaðurinn er hreinlega of mikill. Ekki hefur farið fram greining á því hvort fólk af landsbyggðinni fari síður í meðferð sökum mikils ferðakostnaðar en það væri mjög áhugavert að skoða það nánar.

Það kemur fyrir að eggheimta gengur ekki að óskum eða eggin frjóvgast ekki. Þá eru engir fósturvísar til staðar til uppsetningar. Möguleiki á þungun er því enginn. Slíkar aðstæður koma því miður upp hér um það bil 20 sinnum á ári. Þá eru fyrir því ákveðin sanngirnisrök að slík meðferð sé að fullu niðurgreidd en þó ekki talin með niðurgreiddum meðferðum eins og gert er þegar ekki verður af eggheimtu.

Í 5. tölulið tillögugreinarinnar kemur fram að kynfrumur frá tilteknum einstaklingi eigi aðeins að fara til eins pars eða einstaklings. Nú eru keyptir fimm sæðisskammtar frá Danmörku frá hverjum gjafa. Engar reglur eru til um það hversu margar konur fá sæði frá sama manni. Ef kona vill vera viss um að barnið hennar eigi ekki hálfsystkini sem hún veit ekki af þarf hún að kaupa alla skammtana, láta frysta þá og greiða fyrir það geymslugjald þangað til búið er að nota skammtana. Að mati flutningsmanna tillögunnar er þetta ekki nógu gott fyrirkomulag enda eðlilegt að foreldrar viti um hálfsystkini barna sinna en séu ekki í óvissu með það til hversu margra kvenna gjafasæði frá tilteknum manni fer, sérstaklega í svo fámennu samfélagi sem Ísland er. Því fylgir aukakostnaður að kaupa alla skammtana frá tilteknum manni og geyma þá en óvíst er þegar kona hefur hafið fyrstu meðferð hvort hún fari í aðra meðferð takist sú fyrsta ekki enda hefur meðferðin mismunandi og mismikil áhrif á konur. Einnig hefur kaupandinn enga tryggingu fyrir því að fleiri sæðisskammtar verði ekki keyptir frá sama gjafa síðar þó að hann hafi keypt alla fimm skammtana. Hið sama á við um eggfrumur.

Á árinu 2013 fór frjósemi íslenskra kvenna niður fyrir 2,1 barn á konu, en það er sú tala sem þarf að vera svo þjóðin nái að standa í stað varðandi fólksfjölda. Það væri því þjóðhagslega hagkvæmt að hjálpa þeim sem vilja eignast börn til þess. Ljóst er að endurskoðuninni sem lögð er til í þessari þingsályktunartillögu fylgir aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð. Erfitt er að segja til um af nákvæmni hversu mikill sá kostnaður kann að verða en gera má ráð fyrir því að hann verði ekki verulegur.

Flutningsmaður tillögunnar sem hér stendur leggur nú til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.