149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

106. mál
[16:01]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ágætu ræðu. 1. flutningsmaður þessa frumvarps, Njörður Sigurðsson, starfar reyndar sem sviðsstjóri hjá Þjóðskjalasafni Íslands og hefur þess vegna verið vakinn til umhugsunar um þessi mál. Hann sýslar með menningarverðmæti í vinnu sinni alla daga.

Ég held að ein ástæða þess að Íslendingar hafi ekki gerst aðilar að þessum samningi sé sú gamalgróna hugsun hér á landi að hér gerist aldrei neitt. Hér er aldrei stríð. En það er hins vegar svo að þegar seinni heimsstyrjöldin var háð var Ísland náttúrlega líka vettvangur þeirra átaka á sinn hátt. Guð má vita hvað hefði gerst ef aðrar þjóðir hefðu hernumið Ísland og hér hefðu jafnvel hugsanlega verið loftárásir og aðrar tegundir af átökum. Við getum ekki leyft okkur þá hugsun að gera bara ráð fyrir því að aldrei gerist neitt hér.

Þess vegna finnst mér alveg full ástæða til að vera aðili að þessum samningi.

Kostnaður? Ég þori ekki að fullyrða um hann en þó held ég að óhætt sé að segja að hann sé ekki verulegur. Um leið græðum við það að við skráum menningarverðmæti og búum þá að þeirri skráningu og getum notað hana á annan hátt.