149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

107. mál
[17:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, starfskostnað, sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson er 1. flutningsmaður að og fylgdi eftir í ágætri framsögu áðan.

Ég tel fulla ástæðu til að þakka þingmanninum og flutningsmönnum almennt fyrir að flytja þetta mál og kannski sérstaklega hv. þingmanni fyrir að fylgja því úr hlaði á afar hófstilltan hátt, án nokkurra upphrópana eða brigsla, heldur fyrst og fremst taka á því á þann málefnalega hátt sem hann gerði.

Að mínu viti er afar mikilvægt að upplýsingar um starfskjör þingmanna og endurgreiðslu starfskostnaðar séu algjörlega uppi á borðinu. Gerð hefur verið tilraun til þess að gera þær reglur ítarlegri, eins og þingmaðurinn fór yfir, í 8. gr. reglna um þingfararkostnað. Þar er ýmislegt talið upp, til að mynda blóm og gjafir, sem maður veltir fyrir sér hvernig hafi komist þarna inn. En allt í góðu með það, kannski er það arfleifð frá eldri reglum eða vangaveltum.

Umræðan í samfélaginu um laun og launakjör þingmanna hefur verið töluverð og hv. þingmenn hafa væntanlega tekið eftir henni. Hún hefur ekki farið fram hjá neinum og ég er viss um að það er rétt sem hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna í dag að sú umræða, og ekki síst núna sú rýrð sem hefur verið kastað á sumt af því sem hv. þingmenn gera og fá endurgreitt, eða hvað maður kallar það, er áreiðanlega þáttur í því að virðing þingsins hefur farið halloka, eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson kom inn á áðan.

Þess vegna getur mál eins og þetta skipt verulegu máli til að byrja þá vegferð að endurheimta það traust. Það er mikilvægt að við sem hér störfum hugsum þetta svolítið á þeim nótum, að við tökum afstöðu til málsins á þeim forsendum.

Við hv. þm. Andrés Ingi Jónsson ræddum aðeins í andsvörum hvernig þetta yrði framkvæmt. Raunar hafa nokkrir hv. þingmenn síðan komið inn á eða vitnað um hvernig þeir gleymi stundum eða alltaf einhverjum tilteknum reikningum o.s.frv.

Það leiðir okkur að því að ef þetta mál gengi fram og kláraðist væri afar mikilvægt að þingskrifstofan fyndi leiðir til að gera mönnum þetta eins auðvelt og hægt er, ekki bara til að létta störf þingmanna heldur líka til þess að taka utan um heildarmarkmiðið með frumvarpinu, þ.e. að störfin verði raunverulega gegnsæ, það verði raunverulega gegnsætt hvað við erum að sýsla, hvar við erum o.s.frv.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr eru þingmenn að vissu marki í opinberri eign, þ.e. við erum fulltrúar þeirra sem kusu okkur hingað. Sem slíkir erum við í þeirri stöðu að verða að sætta okkur við, og höfum væntanlega öll farið fram á það, að störf okkar séu undir stækkunargleri á hverjum tíma. Það er fullkomlega eðlilegt og ekkert athugavert við það.

Það hefur aðeins verið reifað í umræðunni hver kjör þingmanna eigi að vera, hversu góð eða há, eða lág eftir atvikum, laun þingmanna eigi að vera. Það eru ýmis sjónarmið í því. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa nefnt að laun þingmanna eigi ekki að vera nein ofurlaun. Ég er algjörlega sammála því. Það er engin þörf á því. En það er líka mikilvægt að hafa í huga að laun þingmanna mega ekki vera þannig heldur að það sé beinlínis erfitt að framfleyta sér á þeim, ekki frekar en á öðrum launum í landinu. Ef við erum á því að laun í landinu eigi að vera þannig að fólk geti framfleytt sér á þeim verða þingmenn að geta það líka.

Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur sem sagði áðan að það eigi ekki endilega að vera kappsmál að lækka laun þingmanna eða lækka laun einhvers staðar í samfélaginu heldur eigum við miklu fremur að tala fyrir því að laun allra séu þannig að menn geti raunverulega framfleytt sér á þeim.

Ég ræddi það líka við hv. þm. Andrés Inga Jónsson hvort efni væri til að fara í heildarendurskoðun á reglum um starfskostnað og þá jafnvel á reglum um þingfararkostnað yfirleitt. Það hafa fleiri þingmenn komið inn á. Að stofni til eru þær reglur sennilega orðnar nokkuð við aldur. Kannski er ágætisábending til forsætisnefndar, sem mér skilst að hafi forræði yfir þeim reglum, að nefndin reyni, jafnvel þó að þetta mál verði ekki samþykkt, að nota umræðuna um málið sem nokkurs konar ákall um að þingmenn hafi áhuga á því að þau mál séu rædd og séu uppi á borðum.

Þingmenn vilja gjarnan að þau mál séu rædd fyrir opnum tjöldum og skoðuð. Það á ekki að vera neitt feimnismál fyrir þingmenn hvernig starfskostnaðurinn er. Ég held sjálfur að það að hafa valmöguleikann, ef við getum kallað svo, á að taka starfskostnaðinn eins og hver önnur laun sé óskynsamleg hugmynd, svona þegar maður fer að hugsa alvarlega um það.

Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kemur inn á er hugmyndin á bak við þetta að hafa áfram eitthvert þak á því sem hægt er að leggja fram sem starfskostnað. En það gerist ekkert nema menn framvísi einhvers konar staðfestingu á að þeir hafi orðið fyrir kostnaði. Það er mikilvægt.

Þingmaðurinn kom inn á það í andsvari við mig, og ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér síðan, hvernig þetta mál blandaðist saman við þá umræðu sem nú er um stöðuna eftir að kjararáð hefur verið lagt niður og hvernig verði með ákvarðanir á launum kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna í kjölfarið á því, en eins og hv. þingmönnum er kunnugt liggur núna fyrir í þinginu mál þar um í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Það kann að vera að þetta mál hafi áhrif á þá umræðu sem er í nefndinni en ég sé ekki flöt á því að taka þau mál einhvern veginn saman og gera að einu.

Virðulegur forseti. Ég held að hér sé á ferðinni ágætismál sem geti í rauninni, og það er eiginlega athyglisverðast, hvort sem það verður klárað á þessu þingi eða ekki, haft jákvæð áhrif á ásýnd þingsins og ásýnd starfa þingmanna. Það að hér hafi þó þetta margir þingmenn tekið til máls og lýst yfir ánægju með málið og rætt það á þeim nótum að það sé til þess fallið að bæta ásýnd þingsins held ég að sé afar jákvætt og gott innlegg í þá umræðu sem væntanlega verður í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar þar að kemur.