150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

dagskrá fundarins.

[13:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri til að gera athugasemdir við dagskrá fundar í dag. Hér er á dagskrá mál sem snýr að þjóðlendum og það vekur nokkra undrun að mál eins og það sem augljóst pólitískt ósætti er um sé sett á dagskrá. Þó að ekki hafi allir þingflokkar sterkar skoðanir á þessu máli hafa sumir það. Við lok 2. umr. má segja að lofað hafi verið mikilli og djúpri yfirferð um efnisatriði málsins á milli 2. og 3. umr. Niðurstaðan er sú að samanlagt eru engar breytingar gerðar á málinu milli 2. og 3. umr. Það er algerlega augljóst og það kallar á töluverða umræðu. Mér finnst það ekki góð byrjun á þessari vegferð, þegar kallað hefur verið eftir sátt og samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu, að byrja á því strax á fyrsta degi að kasta máli eins og þessu inn á dagskrá þingfundar.