150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

dagskrá fundarins.

[13:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þau snöru viðbrögð hæstv. forseta að taka samvinnumálið, ef svo má kalla, í vegaframkvæmdum af dagskrá. Þó hefði verið miklum mun skynsamlegra að taka þjóðlendumálið af dagskrá. Samvinnumálið er þó bara að fara til nefndar þar sem öll meðhöndlun málsins er eftir. Hér erum við að ganga til 3. umr., lokaumræðu, um þjóðlendumálið þannig að málið á að klárast í dag. Það hvarflaði ekki að mér að það yrði einhver takmörkun á ræðutíma, skárra væri það.

Ég beini því til hæstv. forseta, úr því að mat hans er að rétt sé að taka annað af þessum tveimur málum af dagskrá dagsins í dag að fullu, að það væri miklu eðlilegra að það væri málið um þjóðlendur sem er til 3. umr. en mál um samvinnuverkefni sem er til 1. umr.